136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á stjórnarskránni. Sérnefnd hefur fjallað um það og fyrir liggur nefndarálit sem fimm hv. þingmenn undirrita. Nú ætla ég að fara að halda ræðu og ég ætla að beina spurningum til þessara nefndarmanna, hvað þeir meini eiginlega og hvernig þetta lítur allt saman út. Ég er ekki viss um að þeir fái nokkurn tíma að vita þessar spurningar mínar nema þeir sem eru viðstaddir, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem hefur setið hér allan tímann en ekki svarað miklu, (Gripið fram í: Og er sofandi.) nei, ég segi það nú ekki, og hv. þm. Atli Gíslason sem er nýmættur og hefur eflaust hlustað á margt en engu svarað.

Þetta er ekki umræða, þetta er eintal. Maður situr hérna klukkan eitt að nóttu og talar í eintali. Háreysti í þingsal. Ég kæri mig ekki um það. (Gripið fram í: … komast bara ekki að.) (Gripið fram í.)