136. löggjafarþing — 124. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég skal ekki neita því að ég hafi kannski dottað aðeins undir henni. (Gripið fram í.) En það sem hann er að velta fyrir sér og fleiri hafa nefnt í máli sínu varðar persónukjörið og textann sem snýr að persónukjörinu í nefndarálitinu. Menn undrast hvað hann þýði eða velta fyrir sér hvað hann þýði. Í því sambandi er í rauninni hægt að segja að það sé ákveðið inngrip í persónukjör en þær áherslur sem settar eru fram af meiri hlutanum séu mikilvægar þó að þær séu ekki útfærðar, bæði hvað varðar jafnrétti milli kynja og eins að fulltrúar skuli vera úr öllum kjördæmum og landshlutum. Það er þess vegna sem textinn er með þessum hætti að það gæti farið svo að ekki verði um hreint persónukjör að ræða, meira að segja er ýjað að því að svo gæti farið að það þyrfti að fara út í fyrirkomulag sem kallar á uppbótarmenn. En þetta er ekki útfært og verður ekki útfært fyrr en lög hafa verið sett á Alþingi um það hvernig þetta kjör skuli fara fram.

Hv. þingmaður velti líka mikið fyrir sér hvort um tvenns konar stjórnlagaþing verði að ræða og tvö stjórnlagaþing á sama tíma. Ég vil taka svolítið undir með hv. þingmanni hvað það varðar að ekki er hægt að útiloka það að Alþingi samþykki (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskrá og sendi til þjóðarinnar verði 79. gr. breytt og á sama tíma sé stjórnlagaþing að störfum.