136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í tilefni 60 ára afmælis þess ágæta bandalags. Þá kemur fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu þar sem segir að vegna sérstakra anna á innanlandsvettvangi þurfi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að hverfa frá áformum um þátttöku í fundinum og sendir í sinn stað hinn merka hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Mig langar af því tilefni að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðsson, hvort honum hefði ekki þótt eðlilegra og betri bragur að því að forsætisráðherra færi á þennan ágæta leiðtogafund, sem er afar mikilvægur fundur, og notaði t.d. það tækifæri til að mótmæla á þeim vettvangi að breska ríkisstjórnin hefði sett Íslendinga á bekk með hryðjuverkamönnum. Þar gefst forsætisráðherra, æðsta embættismanni þjóðarinnar, mikilvægt tækifæri til að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri við fullan sal af okkar helstu og bestu bandalagsþjóðum, af fullum þunga en hæstv. forsætisráðherra lætur sér tækifærið úr greipum ganga. Það er mikilvægt að upplýsa bandalagsþjóðir okkar um þetta óvinabragð sem breska ríkisstjórnin beitti okkur Íslendinga og er ekki enn búin að leiðrétta. Ég vek athygli á því.

Ég veit að Íslandsdeild NATO-þingsins og aðrar hv. alþjóðanefndir þingsins hafa notað öll tækifæri til að koma sjónarmiðum Íslendinga á framfæri og þess vegna skýtur það mjög skökku við að hæstv. forsætisráðherra láti þetta fram hjá sér fara. Í hverju felast þessar annir forsætisráðherrans á innanlandsvettvangi? Er það kannski að stinga stjórnlagaþingi upp í Framsóknarflokkinn til að styðja við þessa höltu og fullkomlega gagnslausu minnihlutastjórn eða hvað? Ekki sést ráðherrann í þessum sal. Ekki er á það bætandi að upplýsingar um Icesave-málið eru í besta falli misvísandi þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur í viðtal og talar um að glæsilegrar niðurstöðu sé að vænta. Inntur eftir því á nefndarfundum dregur hann dálítið í land og talar um bærilega niðurstöðu. Hvernig verður það þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur heim? (Forseti hringir.) Verður að vænta (Forseti hringir.) ömurlegrar niðurstöðu?