136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég átti von á því að hér yrði boðið upp á málefnalega umræðu um það tilefni sem ég fékk viðvörun um að yrði á dagskrá undir liðnum Störf þingsins en því er ekki að heilsa. Ég hélt satt að segja að þingmaðurinn hefði ætlað að spyrja af hverju formaður utanríkismálanefndar, sá sem hér stendur, væri ekki sendur á NATO-fundinn í stað forsætisráðherra vegna anna hans. Það hefði kannski verið forvitnilegt að sjá hvernig það hefði farið.

Vegna þess sem hér er spurt hvaða annir það séu sem verða til þess að hæstv. forsætisráðherra getur ekki sótt fundinn, er mér í fyrsta lagi ekki kunnugt um dagskrá hæstv. forsætisráðherra. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur ærinn starfa á innanlandsvettvangi í þeim brýnu viðfangsefnum sem við erum að takast á við og er fullur sómi að því fyrir Íslands hönd að hæstv. utanríkisráðherra sitji þennan fund fyrir hönd Íslands og gæti þar íslenskra hagsmuna og tali máli íslenskra sjónarmiða. Hæstv. utanríkisráðherra hefur, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, átt fund með utanríkisráðherra Bretlands, David Miliband, fyrr í þessari viku þar sem þeir ræddu m.a. þau álitaefni sem hv. þingmaður vakti máls á, svo sem Icesave-málin. Ég held að hv. þingmaður hefði mátt spyrja að því hvers vegna framferði Breta hafi ekki verið mótmælt, hvers vegna beitingu hryðjuverkalaganna hafi ekki verið mótmælt, hvers vegna fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, lét það ekki verða eitt af sínum fyrstu verkum þegar þessari löggjöf var beitt að mótmæla henni mjög kröftuglega. Hann kemur síðan í fjölmiðla og segir eitthvað í þá veru að kannski hefði átt að mótmæla. Það má líka halda því fram að beiting hryðjuverkalaganna sé dæmigerð aðferð hernaðarríkja og endurspeglast sú afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að standa utan hernaðarbandalaga, (Forseti hringir.) við viljum ekki taka þátt í þess háttar hlutum.

En ég verð að segja (Forseti hringir.) alveg eins og er, virðulegur forseti, ég hefði kosið (Forseti hringir.) að hér færi fram málefnaleg umræða um það umræðuefni sem hv. þingmaður vildi taka fyrir.