136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spurði hvað ylli því að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki tök á því að mæta á leiðtogafund NATO. Ég held að hv. þingmaður sé einn fárra Íslendinga sem ekki áttar sig á því ástandi sem er í landinu í dag (Gripið fram í.) og því að verkefni á innanlandsvettvangi eru þess eðlis að þau krefjast fullrar athygli og orku forsætisráðherra nú um stundir. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst að hér þarf að klára mikilvæg mál sem lúta að hag heimila og fyrirtækja og forsætisráðherra er í því upptekinn. (Gripið fram í.)

Því til viðbótar gerir hinn nýi málþófsflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, daglega kröfur um að hæstv. forsætisráðherra sé til taks, til skrafs og ráðagerða (Gripið fram í.) við forustu flokksins um nákvæmlega ekki neitt (Gripið fram í.) þannig að það er mikilvægast að hæstv. forsætisráðherra sé á staðnum (Gripið fram í.) til að eiga orðastað við málþófsflokkinn mikla. Forsætisráðherra þarf auðvitað að sinna innanlandsverkefnum fyrst og fremst við þessar aðstæður. Hæstv. utanríkisráðherra er fullkomlega í stakk búinn að færa fram athugasemdir eins og hann hefur þegar gert, nú síðast í þessari viku, við utanríkisráðherra Bretlands vegna beitingar hryðjuverkalaga. Það er hins vegar alveg ljóst að af Íslands hálfu hafa komið skýrt fram á undanförnum mánuðum athugasemdir okkar við þetta mál og mótmæli okkar við því. (Gripið fram í.) En forsætisráðherra á ekki að hlaupast frá brýnum verkefnum á innanlandsvettvangi til skrafs og ráðagerða við þær aðstæður (Gripið fram í.) sem núna eru í samfélaginu. (Gripið fram í.)