136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var mjög upplýsandi sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði. Hv. þingmaður fór yfir það að Framsóknarflokkurinn hefði farið í vegferð til að losna við ríkisstjórn og var með ákveðnar kröfur. Að vísu nefndi hv. þingmaður bara eina sem augljóslega er stóra málið. Það er stjórnlagaþingið. Komið hefur fram hvað eftir annað og er öllum ljóst að þessi ríkisstjórn er algerlega ófær um að fara í nauðsynlegar efnahagsráðstafanir, hún er algerlega ófær um það. Síðast ítrekaði oddviti framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi það en hér kemur hv. þingmaður, helsti forustumaður framsóknarmanna í þinginu og forgangsraðar, (Gripið fram í.) segir okkur hreint og klárt að það sé aukaatriði hjá þingflokki framsóknarmanna. Stóra málið er stjórnlagaþingið (Gripið fram í.) og skiptir engu máli þótt þeir forustumenn sem eru á vettvangi, það fólk framsóknarmanna sem hittir fólkið og heyrir afstöðu þess, segi annað. Formaður og forustumaður framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi kemur hvað eftir annað og segir: Þetta er algerlega ótækt. Ríkisstjórnin verður að fara að gera það sem henni var uppálagt að gera. Hér sitja hv. þingmenn framsóknarmanna og forgangsraða. Efnahagsmál eru aukaatriði. Stóra málið er að keyra í gegn stjórnarskrárbreytingar með miklum hraða, með miklu offorsi og það er alger klofningur í þessum pínulitla Framsóknarflokki. Annars vegar er það fólkið (Forseti hringir.) sem er í forustu fyrir flokkinn (Forseti hringir.) og hins vegar þingmennirnir (Forseti hringir.) sem vilja keyra í gegn stjórnarskrárbreytingar (Forseti hringir.) með miklu offorsi.