136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – atvinnumál námsmanna.

[11:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Atvinnuhorfur námsmanna bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi eru skelfilegar því að við blasir að 13.000 námsmenn verða án sumarvinnu og því fylgja fleiri vandamál til framtíðar litið.

Ríkisstjórnin ákvað 20. febrúar sl. að setja á laggirnar starfshóp, m.a. til að kanna atvinnuhorfur námsmanna á háskólastigi, og var markmið hópsins að undirbyggja stefnu og ákvarðanir er varða atvinnumál námsmanna. Það er gott og gilt í sjálfu sér en ekkert gagn að því enn þá og nú er kominn 3. apríl, engar tillögur hafa litið dagsins ljós og tíminn er að renna út.

Nám er vinna og því þarf að gefa námsmönnum á þessum skólastigum tækifæri í því árferði sem er til að stunda áframhaldandi nám með einhverjum hætti í sumar. Það er fjárhagslega, félagslega og tilfinningalega hagkvæmt þrátt fyrir aukinn kostnað skólanna. Það er augljóst í mínum huga að það er hægt að nýta fjölbreyttar kennsluaðferðir í fjarnámi, í stað- og fjarbundnu verkefnanámi með leiðsögn og margar aðrar leiðir eru færar. Ég hef fulla trú á því að fagfólk skólastiganna sem býr yfir frumkvæði og áræðni leiti leiða til lausna. Það er því komið að ríkisstjórninni að ákveða hvort og með hvaða hætti hún ætlar að taka þátt í því að auka námsframboð og koma til móts við námsmenn hvað varðar sumarvinnu.

Það hefur alvarlegar afleiðingar ef nemendur flosna upp úr námi. Samfélagið mun allt síðar meir glíma við þau tilfinningalegu og félagslegu vandamál sem við það skapast. Því ætlast ég til þess að við göngum hreint til verks og gerum námsmönnum kleift að stunda nám sitt í sumar ef þeir svo kjósa. Við skulum muna að nám er vinna og menntun er fjárfesting til frambúðar.

Því spyr ég hv. formann menntamálanefndar og stjórnarliða Einar Má Sigurðarson: Er lausn í sjónmáli, hv. formaður?