136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – atvinnumál námsmanna.

[11:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur lokið máli sínu, er það ekki?

Við erum að ræða hér mjög alvarlega stöðu í atvinnumálum námsmanna. Ég tók það upp og óskaði eftir því að haldinn yrði fundur í menntamálanefnd. Sá fundur var haldinn á miðvikudag. Það kom mér mjög mikið á óvart að verða var við það að stefna hæstv. menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytis í þessum efnum liggur ekki fyrir. Hún liggur ekki fyrir enn þann dag í dag þó að nefndin hafi í heild sinni óskað eftir því að þessi mál yrðu skýrari af hálfu ráðherra og ráðuneytis.

Það sem stendur einfaldlega upp á að gert verði núna er að hæstv. menntamálaráðherra tjái hug sinn í þessum efnum. Ég hef í raun aldrei vitað (Gripið fram í.) nokkurn ráðherra jafnþegjandalegan og hæstv. menntamálaráðherra í þessum efnum. Fjölmiðlar eru margbúnir að reyna að ná í hæstv. ráðherra en hún svarar ekki skilaboðum, að því er virðist, og þess vegna verðum við að reyna að koma þessum málum í gegnum þingið eins og verið er að gera núna. (Gripið fram í.)

Það breytir engu um það að þetta mál er alvarlegt sem raun ber vitni og það er alveg rétt að það hefur verið reynt að finna ýmsar lausnir í þessum efnum. Stóra lausnin felst í því að sett verði á sumarnámskeið í Háskóla Íslands til að nemendurnir geti þá stundað nám sitt í ljósi þess að þeir finna ekki sumarvinnu við sitt hæfi í sumar.

Það er einfaldlega eitt sem þarf að gerast núna, hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin þurfa að hafa skoðun í þessum efnum. Núna er væntanlega ríkisstjórnarfundur búinn í dag og það er undarlegt ef ekki kemur út af þessum ríkisstjórnarfundi hrein og klár afstaða til þeirrar beiðni háskólanna að reyna að halda hér námskeið.

Það var undarlegt að átta sig á því að af hálfu menntamálaráðuneytisins liggur ekkert fyrir um það hver kostnaðurinn getur orðið og hver áhrifin geta orðið á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er greinilegt að ekkert hefur verið hugað að þessum málum af hálfu þeirra stjórnvalda sem eiga að hafa þau með höndum. Þess vegna er undarlegt að menn komi hér og láti eins og ekkert sé.

Þetta er stóralvarlegt mál. Það er alveg óháð starfi þessara starfshópa sem vísað var til sem eiga að skila (Forseti hringir.) áliti sínu eftir helgi. Það sem þarf er að ríkisstjórnin taki ákvörðun í þessum efnum (Forseti hringir.) og það getur ekki verið margra daga verk, eða er þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) svona ákvarðanafælin? (Gripið fram í.)