136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:39]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: … málþóf.) Ég ætlaði bara að taka undir með hæstv. forseta því að sjálfstæðismenn, hv. þingmenn flokksins, hafa augljóslega forgangsraðað hvað varðar áhuga þeirra á málum því að eins og forseti fór yfir eru 26 þingmenn á mælendaskrá og mjög líklega eru þá 25 þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem vilja tjá sig um málið. (Gripið fram í.) Ef þetta lýsir ekki áhuga á málinu veit ég ekki hvað. Það væri dónaskapur við Sjálfstæðisflokkinn (Gripið fram í.) og 25 þingmenn (Gripið fram í: 26.) hans að taka mál út af dagskrá sem þeir sýna svo harðan og einbeittan vilja til að fá að tjá sig um.

Þeir hafa augljóslega forgangsraðað og ákveðið að tala vel í þessu máli en ekki má gleyma því að þess á milli leyfa þessir þingmenn sér að tala í nokkrar klukkustundir um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í: Hvað ert þú að gera?) Síðan, virðulegi forseti, kvarta þeir undan því að önnur mál komist ekki á dagskrá. Það er bara einn þingflokkur sem kemur í veg fyrir (Forseti hringir.) að önnur mál komist á dagskrá. Það er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) fulltrúar málþófsflokksins. (Gripið fram í.)