136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:41]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég var efins um hvort ég ætti að fara hér upp og tala í þessari svokölluðu umræðu eða hvað á að kalla þetta, vegna þess að það er svo sem enginn sómi að því að taka þátt í svona leik sem er hér í gangi. En af því að sjálfstæðismenn hafa verið mjög lengi í ríkisstjórn og ríkisstjórnum á síðustu árum og áratugum vita þeir ósköp vel hver fer með völdin síðustu dagana í þinginu og það er stjórnarandstaðan. Stjórnarandstaðan fer með völdin þessa dagana jafnvel þó að við séum búin að breyta þingskapalögum þannig að við héldum að þinghald yrði með meiri sóma og minna um svona uppákomur eins og hafa átt sér stað nú á síðustu dögum.

Ég tel bara að við getum hraðað þessari umræðu um stjórnarskipunarlögin af því að öll sjónarmið eru komin fram, (Gripið fram í.) síðan getum við tekið málið inn í nefnd og það er aldrei að vita nema við getum náð samkomulagi. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég var hér allan tímann í gær og hlustaði á ræðurnar. Ég veit að öll sjónarmið eru komin fram (Forseti hringir.) þannig að við gætum lokið 2. umr. og tekið málið inn í nefnd og athugað hvort við getum náð samkomulagi.