136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom hér upp áðan og reyndi að knýja fram ákveðin svör við tilteknum spurningum sem höfðu vaknað í kjölfar fundar sem menntamálanefnd átti um atvinnuhorfur stúdenta. Ég kem hér upp núna til að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að við fengum ekki svör við þessum brýnu spurningum.

Það liggur fyrir að allar forsendur í þessu máli eru til staðar. Við vitum að vandi námsmanna er ákaflega brýnn og mjög alvarlegur, ekki þarf um það að deila. Vilji háskólanna til að reyna að bregðast við með sumarönnum og sumarnámskeiðum liggur líka fyrir en þeir segjast þurfa pólitísk svör úr menntamálaráðuneytinu. Þau berast ekki. Þar er bara ein og sama þögnin. Ekkert liggur fyrir um hvað ríkisstjórnin vill gera í þessum efnum.

Það er kvartað undan því að hér sé mikið talað. Ég ætla að segja að ég kvarta undan því að ekki er nógu mikið talað þegar við fáum ekki svör við svona einföldum spurningum. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Hæstv. menntamálaráðherra er ekki viðstaddur en hæstv. forsætisráðherra er kominn, nýkominn væntanlega af ríkisstjórnarfundi. Ég vil nú óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra greini okkur frá því hvort þessi mál (Forseti hringir.) hafi ekki örugglega verið tekin til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi og hvort (Forseti hringir.) svör við þessum einföldu spurningum sem námsmenn, (Forseti hringir.) háskólamenn og við þingmenn höfum borið upp, hvort þau (Forseti hringir.) svör liggi ekki fyrir. Hvað dvelur menn eiginlega í þessum efnum?