136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það er einmitt þetta form sem mig langar að ræða um, fundarstjórn forseta. Við bíðum eftir því að ræða um tillögur að breytingum á stjórnarskránni en sjálfstæðismenn hafa verið mjög duglegir við að nota fundarliðinn um fundarstjórn. (Gripið fram í.) Í þessu máli hafa þeir komið meira en 100 sinnum upp í ræðustólinn til að ræða um fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Svo segja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir standi ekki í neinu málþófi. (Gripið fram í.) Það er einstök tilviljun að hv. þingmenn skuli tefja umræðuna um þessi mál með því að fara í ræðustól á milli ræðna í liðnum um fundarstjórn og það er orðið á annað hundrað skipti sem þeir gert það. Með sama áframhaldi styttist í þúsundið því að þeir þyrpast upp eftir hverja einustu ræðu sem hér er flutt. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill að breytingar á stjórnarskránni fari fram á forsendum Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) en ekki þjóðarinnar en stór (Gripið fram í.) meiri hluti þjóðarinnar (Forseti hringir.) vill að breytingar stjórnarskrá verði afgreiddar (Forseti hringir.) á þessu þingi, sérstaklega stjórnlagaþing Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) eins og Sjálfstæðisflokkurinn nefnir það í þessari umræðu.