136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Til að vera á jákvæðu nótunum ætla ég að binda ákveðnar vonir við að hæstv. forseti geti náð árangri með formönnum þingflokkanna um að taka 7. liðinn um álver í Helguvík framar á dagskrá og ræða það jafnvel strax. Ég geri ráð fyrir að mikill áhugi verði fyrir því að ræða það mál. Það er spurningin um atvinnu fyrir fólkið í landinu og ég skora á hæstv. forseta að halda þennan fund nú þegar þannig að við getum strax farið að ræða álverið í Helguvík. Ég er nærri viss um að það næst samkomulag um að sú umræða verði ekki allt of löng vegna þess að það er áhugi allra að bæta atvinnu í landinu. Þó að einstakir þingflokkar eins og Vinstri grænir séu á móti álverum eru aðrir þingflokkar allir með því að þetta verði gert þannig að ég skora á hæstv. forseta að halda þennan fund með formönnum þingflokkanna.