136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:54]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem farið hefur fram um fundarstjórn forseta vil ég segja að ég hef verið mjög ánægður með fundarstjórn forseta en það hafa ekki allir verið. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa efnt til umræðu um fundarstjórn forseta sem tók tæplega þrjár og hálfa klukkustund í gær. Á sama tíma hafa þeir talað í stjórnarskipunarmálinu mjög lengi og mikið en þrátt fyrir það tala hv. þingmenn um í ræðum sínum að það þurfi að ræða einhver allt önnur mál. Hvernig í veröldinni má koma að öðrum málum þegar umræðan er á því plani sem hún er?

Svo verð ég að segja líka, virðulegi forseti, vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilið eftir þá arfleifð að hér eru 18 þúsund manns atvinnulausir, 13 þúsund manns eru í vanda, (Gripið fram í.) heimilin eru í vanda, fyrirtækin eru í vanda. (Gripið fram í.) Þetta er arfleifðin sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig. (Gripið fram í.) En hv. þingmenn leyfa sér þann munað (Gripið fram í.) að koma og skamma slökkviliðið (Gripið fram í.) sem er að taka til eftir 18 ára (Forseti hringir.) valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Það er með hreinum ólíkindum (Gripið fram í.) hvernig hv. þingmenn tala.