136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvað leikreglur lýðræðisins fara fyrir brjóstið á minnihlutastjórninni og fulltrúum hennar. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er skipaður 26 þingmönnum og ég er ein af þessum 26. Eins og við gerum öll þegar við setjumst inn á þing undirritum við það drengskaparheit að við förum eftir okkar bestu sannfæringu og það er því enginn sem talar fyrir mig annar en ég sjálf. Þess vegna vekur það hjá mér mjög mikla furðu þegar menn sjá ofsjónum yfir því að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins röðum okkur á mælendaskrá um svo mikilvægt mál sem breyting á stjórnarskrá Íslands er. Þar er enginn annar sem getur talað fyrir mig, þar er enginn annar sem getur lýst mínum sjónarmiðum. Ég veit að þegar sagan dæmir þessa stjórnarskrárbreytingu sem hina mestu aðför að stjórnarskránni vil ég að það liggi fyrir í skrifuðum texta Alþingis hver mín afstaða var til þessa máls og hvernig ég beitti mér fyrir því (Forseti hringir.) að koma í veg fyrir það, virðulegi forseti.