136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:00]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum mál á þskj. 648 sem heitir frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Áður en ég ræði þetta mál velti ég því fyrir mér af hverju þetta er kallað frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þegar ég lærði lögfræði töluðum við um stjórnskipun, um stjórnskipunarrétt og um stjórnskipunarlög. Mér þætti vænt um ef annaðhvort framsögumaður eða formaður sérnefndar um stjórnarskrármál mundi svara því á eftir af hverju við köllum þetta stjórnarskipunarlög, sem mér finnst vera algert orðskrípi.

Það er sem sagt stjórnarskráin sem við erum að ræða og breytingar á henni. Stjórnarskráin er æðst laga, við vitum það öll og í henni felast grundvallarleikreglur samfélagsins. Þess vegna þykir sjálfsagt og eðlilegt að breytingar á stjórnarskránni lúti öðrum og mun strangari reglum en gilda um lagabreytingar almennt. Enda er sú raunin í flestum ef ekki öllum ríkjum sem búa við skrifaða stjórnarskrá.

Þrjár meginleiðir eru tíðkaðar við stjórnarskrárbreytingar í þeim lýðræðisríkjum sem við viljum bera okkur saman við. Krafist er aukins meiri hluta á þingi fyrir stjórnarskrárbreytingum, þjóðaratkvæðagreiðslu eða að þing sé rofið og efnt til kosninga áður en breytingar eru endanlega samþykktar og stundum er þessum leiðum blandað saman. Til viðbótar kemur að stundum er áskilið að viss tími líði á milli umræðna á þingi til að afstýra því að jafnveigamiklar breytingar séu afgreiddar í flýti.

Í lýðveldisstjórnarskránni frá 1944 eru fyrirmæli um breytingar á henni, í 1. mgr. 79. gr. Þar kemur fram að tillögur til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni megi bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki, en hún þarf ekki nema einfaldan meiri hluta þingmanna, skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, eftir almennar kosningar, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.

Þetta fyrirkomulag hjá okkur hefur það í för með sér að kjósendur gera sér sjaldnast grein fyrir því að um leið og þeir kjósa til Alþingis eru þeir jafnframt að kjósa um undirliggjandi stjórnarskrárbreytingu hafi slík tillaga verið samþykkt á nýliðnu þingi, enda hefur kosningabaráttan í viðkomandi alþingiskosningum sjaldan ef nokkru sinni snúist um hina undirliggjandi stjórnarskrárbreytingu. Ástæðan fyrir því er augljós. Það hefur verið nær órofin hefð að stjórnarskrárbreyting er ekki gerð nema um hana sé breiður pólitískur vilji og full samstaða milli allra þingflokka á Alþingi. Þess vegna hefur stjórnarskrárbreytingin ekkert verið rædd í þingkosningum af því að allir pólitísku flokkarnir sem þar buðu fram eru sammála breytingunni og þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Lýðveldisstjórnarskránni frá 1944 hefur verið breytt samtals sjö sinnum og þess vegna er hjákátlegt þegar hér er talað um stjórnarskrána eins og henni hafi aldrei verið breytt. Það þýðir að henni hefur verið breytt um það bil einu sinni á áratug frá gildistöku hennar. Í öll þessi sjö skipti, nema einu sinni, 1959, hefur verið staðið að stjórnarskrárbreytingunni með þeim hætti að alger samstaða hefur náðst milli stjórnmálaflokkanna á þingi. Það er rétt að fara yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni.

Fyrsta breytingin sem var gerð 1959, fól í sér róttæka uppstokkun á kosningakerfinu á Íslandi. Þá voru sett á laggirnar átta kjördæmi með hlutfallskosningu sem leystu gömlu kjördæmin af hólmi og þingsætum var fjölgað í 60. Framsóknarflokkurinn var algerlega á móti þessari breytingu enda fól hún í sér að hann missti umtalsverð völd því að þingstyrkur hans var vegna gamla fyrirkomulagsins langt umfram kjörfylgi hans. Þetta er eina skiptið sem stjórnarskrárbreyting var knúin fram gegn þingflokki og það var réttlætt með því að um væri að ræða flokk sem mundi missa völd ef breytingin næði fram að ganga. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hafa þetta í huga.

Næsta breyting var gerð árið 1968. Kosningaaldur var þá lækkaður í 20 ár og síðan voru gerðar breytingar varðandi lögheimili á Íslandi og skilyrði um búsetu varðandi kosningarréttinn.

Næsta breyting var ekki gerð fyrr en 1984. Þá var kosningafyrirkomulagi breytt. Þingsætum var fjölgað úr 60 í 63 og úthlutunarreglum milli kjördæma og flokka var breytt. Kosningaaldur var lækkaður í 18 ár. Þá var ekki lengur gerð krafa um óflekkað mannorð sem skilyrði fyrir kosningarrétti. Hins vegar var slík krafa gerð gagnvart kjörgengi.

Næstu breytingar voru gerðar 1991. Þá voru gerðar breytingar sem leiddu af ákvörðun um afnám deildaskiptingar þingsins og aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði. Síðan voru gerðar ýmsar minni háttar breytingar sem tengdust meðal annars þingrofi, ákvæðum um þingtíma, kvaðningu Alþingis til funda, frestun þeirra og margt í þeim dúr.

Árið 1995 tóku tvenn stjórnarskipunarlög gildi. Annars vegar var áskilið að endurskoðun á fjárhæðum ríkisins skyldi fara fram á vegum Alþingis en hins vegar var gerð sennilega einhver veigamesta breytingin sem gerð hefur verið frá stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun, þ.e. að allur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður.

Mannréttindasáttmáli Evrópu og aðrir alþjóðlegir mannréttindasáttmálar voru einkum hafðir til fyrirmyndar í því efni. Áhersla var lögð á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en ýmis félagsleg réttindi voru einnig nánar útfærð, t.d. um rétt manna til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu. Í sumum tilvikum var fyrst og fremst um orðalagsbreytingar að ræða eða efni annarrar löggjafar var tekið inn í stjórnarskrá. En í öðrum tilvikum voru þó ákvæðin rýmkuð verulega og efld, t.d. ákvæðið um tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins. Bæði þau ákvæði voru styrkt en einnig var nokkru af nýjum réttindum bætt við. Meðal merkustu breytinganna var tilkoma almennrar jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en einnig má nefna ýmis nýmæli um ríkisborgararétt, refsingar, réttindi barna og bann við afturvirkni skattalaga. Eins var bætt við ákvæði um sveitarstjórnir, að tekjustofnar þeirra skyldu ákveðnir með lögum.

Árið 1999 var kosningafyrirkomulagið enn á dagskrá. Horft var frá þeirri kjördæmaskipan sem innleidd var 1959 og tiltekið að kjördæmi skyldu vera sex eða sjö og mörk þeirra ákveðin í lögum en ekki stjórnarskránni sjálfri nema í Reykjavík og nágrenni þar sem heimilt er að fela landkjörstjórn að ákveða kjördæmamörk. Með þessari breytingu var kosningakerfið einfaldað mjög verulega og jöfnuður í vægi atkvæða aukinn þótt vægi sé að vísu enn talsvert ójafnt, landsbyggðarkjördæmum í hag.

Sú athyglisverða nýbreytni var tekin upp að krafist er tveggja þriðju meiri hluta til að breyta lögum um kjördæmamörk og tilhögun á úthlutun þingsæta en til að breyta stjórnarskránni sjálfri er eftir sem áður ekki krafist nema einfalds meiri hluta á þingi, tvisvar, með kosningum á milli að vísu. Í öll skiptin nema 1959 hefur verið staðið að stjórnarskrárbreytingum með þeim hætti að alger samstaða hefur náðst milli allra stjórnmálaflokka á þingi. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að forustumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi hafa þessi ár verið þeirrar skoðunar að breið samstaða allra flokka sé mikilvæg þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni. Á þessu sama tímabili hafa á hinn bóginn margsinnis verið lagðar fram tillögur á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni. Við skoðun þeirra tillagna kemur í ljós að nær árlega hafa einstakir þingmenn lagt fram slíkar tillögur. Sum árin hafa jafnvel margar tillögur um breytingar á stjórnarskránni verið lagðar fram. Þær hafa hins vegar aldrei náð fram að ganga enda ekki náðst um þær sú breiða pólitíska samstaða sem talin hefur verið hingað til alger forsenda breytinga á stjórnarskránni.

Sú staðreynd að stjórnarskránni hefur einvörðungu verið breytt sjö sinnum frá lýðveldisstofnun hlýtur að vera sterk vísbending um að þó svo þjóðinni hafi verið gefin fyrirheit um að henni yrði færð ný stjórnarskrá eftir lýðveldisstofnunina 1944 og þó svo að nánast samfellt frá lýðveldisstofnun hafi verið starfandi stjórnarskrárnefnd með einum eða öðrum hætti þá hefur krafa þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá hvorki verið brýn né hávær. Enda var stjórnarskráin 1944 samþykkt í þjóðaratkvæði með 98% atkvæða eins og nánar verður komið að á eftir.

Á það má einnig benda að Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, dregur þá ályktun í umsögn sinni til Alþingis að stjórnarskráin frá 1944 hafi alls ekki reynst illa þegar á heildina sé litið og er hún þó að stofni til frá 1874 og var okkur færð af danska kónginum. Í þessu sambandi er rétt að halda til haga, ekki síst í ljósi ummæla formanns sérnefndar um stjórnarskrármál um það að Alþingi hafi brugðist þjóðinni með því að færa henni ekki nýja stjórnarskrá, að frá lýðveldisstofnun hefur eins og áður hefur verið rakið nánast samfellt verið starfandi einhver stjórnarskrárnefnd. Sú síðasta var skipuð í ársbyrjun 2005. Það var forsætisráðherra, framsóknarmaðurinn Halldór Ásgrímsson, sem skipaði þá nefnd. Í nefndinni voru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, formaður nefndarinnar var skipaður hinn mæti framsóknarmaður Jón Kristjánsson.

Í skipunarbréfi nefndarinnar kom fram að endurskoðunin skyldi einkum bundin við I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þeirra þriggja kafla. Í upphafi nefndarstarfsins lýsti formaðurinn því hins vegar yfir að engir hlutar stjórnarskrárinnar væru fyrir fram undanskildir. Sú nefnd sem skipuð var í ársbyrjun 2005 hélt 26 fundi á tímabilinu febrúar 2005 til febrúar 2007 þegar hún skilaði áfangaskýrslu. Með nefndinni starfaði nefnd sérfræðinga. Stjórnarskrárnefndin frá 2005 lagði sig um fram um að hvetja til almennrar umræðu um stjórnarskrána og umbætur á henni.

Hinn 11. júní 2005 hélt nefndin almenna ráðstefnu undir yfirskriftinni „Stjórnarskrá til framtíðar“. Dagskrá ráðstefnunnar var auglýst í blöðum með góðum fyrirvara og félagasamtökum gefinn kostur á að óska eftir framsögu. Um 20 félagasamtök nýttu sér þetta tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá átti nefndin aðild að ráðstefnum Lögfræðingafélags Íslands og stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um þjóðaratkvæðagreiðslur sem haldnar voru 12. september og 29. október 2005, málþingi lagadeildar Háskólans í Reykjavík 1. desember 2005 um dómsvaldið og stjórnarskrána, auk ráðstefnu Sagnfræðingafélags Íslands 25. mars 2006 um forsetaembættið. Þá tóku nefndarmenn þátt í miklum fjölda funda og ráðstefna um málefni sem tengdust stjórnarskránni. Þær upplýsingar sem fram komu á þessum fundum og skoðanaskipti voru að mati nefndarinnar í skýrslu hennar mikilvægt veganesti fyrir nefndina.

Þá starfrækti nefndin heimasíðu, stjornarskra.is, þar sem birtar voru dagskrár funda nefndarinnar, fundargerðir, erindi sem henni bárust, tilkynningar um fyrirhugaða viðburði og ýmislegt ítarefni eins og fyrri stjórnarskrárfrumvörp og eldri gerðir stjórnarskrárinnar. Er sú heimasíða raunar enn þá opin og geymir mikið magn af mjög áhugaverðu efni um stjórnarskrána fyrir þá sem áhuga hafa á því efni.

Stjórnarskrárnefndin frá 2005 hafði það að leiðarljósi að stjórnarskráin svaraði kröfum nútímans án þess að varpa að nokkru leyti fyrir róða grundvallargildum og hefðum íslenskrar stjórnskipunar. Jafnframt var horft til erlendra strauma í þessum efnum.

Í áðurnefndri áfangaskýrslu sem kynnt var í febrúar 2007 kemur fram að á seinni stigum í vinnu nefndarinnar hafi komið fram tvenns konar sjónarmið um hvernig endurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi háttað. Annars vegar að leggja ekki til neinar breytingar nema sem hluta af heildarendurskoðun og hins vegar að freista þess að ná samstöðu um breytingar eða nýmæli sem ekki virtist mikill efniságreiningur um. Niðurstaða nefndarinnar varð hins vegar sú að leggja til einungis eina breytingu, breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar og um það hvernig breytingum á stjórnarskránni skuli háttað í framtíðinni. Nefndarmenn í stjórnarskrárnefndinni frá 2005 töldu slíka breytingu rökréttan fyrsta áfanga að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Yrði sú breyting samþykkt yrði um leið lagður grunnur að því að endurskoðaða stjórnarskrá mætti bera undir þjóðaratkvæði. Endurskoðuð stjórnarskrá mundi því öðlast ótvíræðari lýðræðislega staðfestingu en raunin yrði ef hún væri afgreidd með núgildandi hætti.

Stjórnarskrárnefndin lagði fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga og það er að finna í áfangaskýrslu hennar. Það geymir einungis eina grein, grein um 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það er athyglisvert ekki síst í ljósi þess hvernig lagt er til í því frumvarpi sem við erum að ræða hér hvaða tillögur hin þverpólitíska stjórnarskrárnefnd hafði þá um 79. gr. Ætla ég þess vegna, virðulegi forseti, aðeins að fara nokkrum orðum um það orðalag sem þá var lagt til. Þar var lagt til að frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni mætti bera upp á Alþingi. Slíkt frumvarp mætti ekki samþykkja fyrr en það hefði verið rætt við fjórar umræður og skyldu þrjár vikur hið minnsta líða milli umræðna.

Í öðru lagi var gert ráð fyrir því að frumvarp til stjórnarskipunarlaga þyrfti samþykki a.m.k. tveggja þriðju hluta þingmanna og ef það fengi slíkt samþykki skyldi það lagt undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Það þjóðaratkvæði átti að vera leynileg atkvæðagreiðsla, fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og síðasta lagi fjórum mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins. Væri meiri hluti gildra atkvæða fylgjandi frumvarpinu en þó a.m.k. 25% allra kosningarbærra mann þá skyldi það staðfest af forseta og öðlast gildi sem stjórnarskipunarlög. Yrði frumvarpið hins vegar samþykkt án þess að minnst tveir þriðju alþingismanna greiddu því atkvæði þá skyldi fresta frekari meðferð þangað til nýjar alþingiskosningar hefðu verið haldnar á venjulegum tíma. Að þeim loknum skyldi bera tillöguna þar upp aftur og ef það yrði þá samþykkt óbreytt í þremur umræðum skyldi það lagt undir atkvæði kosningarbærra manna í landinu. Sömu ákvæði voru um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, þó þannig að meiri hluti atkvæða skyldi gilda en minnst 20% kosningarbærra manna þurftu að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni.

Það er sérstaklega athyglisvert að bera þetta saman, þetta ákvæði sem allir stjórnmálaflokkar sem tóku þátt í þessu starfi voru sammála um á þessum tíma í ljósi þeirrar tillögu sem nú er um 2. gr. í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um það hvernig 79. gr. skuli vera. Í fyrsta lagi eru engin skilyrði í þeirri tillögu sem við ræðum hér um aukinn meiri hluta á þinginu, það eru engin skilyrði um tíma sem skuli líða milli umræðna. Síðan eru að vísu skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem eru nokkuð sambærileg.

Í greinargerð með frumvarpinu sem stjórnarskrárnefndin frá 2005 samdi kemur fram að hún leggi til að eftirleiðis verði engar breytingar gerðar á stjórnarskránni nema þjóðin samþykki þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Taldi nefndin full rök standa til þess að gera fyrst um sinn þessa breytingu og skapa þannig forsendu til þess að ný endurskoðuð stjórnarskrá yrði staðfest með beinum lýðræðislegum hætti. Benti nefndin sérstaklega á í skýrslu sinni að þessi tillaga um fyrirkomulag 79. gr. væri í samræmi við fjölmargar tillögur sem henni höfðu borist.

Í greinargerðinni er enn fremur bent á það að fyrir þjóðaratkvæði sé ekki mikil hefð á Íslandi og að á 20. öldinni og raunar frá upphafi hafi eingöngu verið haldnar sex slíkar hér á landi, 1908 vegna innflutningsbanns á áfengi en það var samþykkt með 60% atkvæða, 1916 þegar því var hafnað að taka upp þegnskylduvinnu með 93% gildra atkvæða, sambandslögin frá 1918 voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu það ár með yfir 90% atkvæða, innflutningsbann á áfengi var afnumið í þjóðaratkvæðagreiðslu 1933 með tæplega 60% gildra atkvæða og sambandslögin frá 1918 voru afnumin 1944 með 99,5% atkvæða og gildandi stjórnarskrá, lýðveldisstjórnarskráin, var samþykkt á sama tíma með 98,5% gildra atkvæða. Við megum ekki gleyma því að stjórnarskráin okkar var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var samþykkt með 98,5% atkvæða.

Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að framsóknarmenn voru ekki alveg glaðir með niðurstöðu af vinnu stjórnarskrárnefndarinnar frá 2005 þótt forusta nefndarinnar væri í þeirra höndum. Framsóknarflokkurinn tók sig því til og knúði fram að formaður flokksins ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á þskj. 1064 á 133. löggjafarþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hafði að geyma eina grein sem verða skyldi 79. gr., svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.“

Í greinargerð frumvarps til stjórnarskipunarlaga, þ.e. til breytingar á stjórnarskránni árið 2007, er vísað til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 23. maí 2003 um að ákvæði um auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar skyldi bundið í stjórnarskrá lýðveldisins. Vísað er til skipunar stjórnarskrárnefndarinnar sem ég hef hér verið að rekja og að samkvæmt áfangaskýrslu hennar frá 2007 liggi ekki fyrir endanlegar tillögur um efni og framsetningu stjórnarskrárákvæðis um auðlindamál. Í skýrslunni komi þó fram að ekki hafi náðst sátt um þá tillögu að stjórnarskrárákvæði sem sett hafði verið fram í skýrslu auðlindanefndar árið 2000, þá hafi einnig komið fram mismunandi sjónarmið um það hvort tillaga auðlindanefndar fæli í sér breytingu eða staðfestingu á núverandi réttarástandi. Á vettvangi stjórnarskrárnefndar kæmi því ekki fram að svo stöddu tillaga sem fullnægði stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2003. Því hefðu formenn ríkisstjórnarflokkanna, ég undirstrika, formenn ríkisstjórnarflokkanna látið semja sérstakt frumvarp til stjórnarskipunarlaga um þetta atriði.

Eðlilega varð um þetta mál mikil umræða á þingi og ég ætla að leyfa mér ekki síst, virðulegi forseti, í ljósi þess hvernig hér hefur verið haldið á málum, að minna á ýmis ummæli sem þá féllu.

Í 1. umr. um frumvarpið sem var haldin 12. mars 2007 sagði fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sem þá var í stjórnarsandstöðu m.a., með leyfi forseta:

„Í öðru lagi hljótum við að gagnrýna mjög harkalega hér í umræðum í dag hvernig þessi tillaga formanna stjórnarflokkanna er fram komin, hvernig hana bar að, þ.e. það var engin viðleitni af þeirra hálfu til að ná samstöðu þvert á stjórnmálaflokkana á þingi og að auki kemur tillagan inn í þingið á lokadögum þess þegar mjög lítið ráðrúm er til þess að fjalla um hana.“

Formaður Vinstri grænna, núverandi fjármálaráðherra, sem þá var einnig í stjórnarandstöðu sagði m.a. við sama tækifæri, með leyfi forseta:

„Það er óhjákvæmilegt að ræða fyrst lítillega aðstæður eða bakgrunn þessa máls, ekki síst vegna framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég verð að segja hvað varðar þann inngang að ræðu hans held ég að hann sé einhver sá vandræðalegasti sem seinni tíma þingsagan geymi, þegar hæstv. forsætisráðherra var að reyna að útskýra hvers vegna það væri réttlætanlegt og hvernig það hefði gerst að hæstv. ráðherra ásamt með formanni hins stjórnarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefði soðið saman þetta frumvarp og hent því hér inn í þingið eins á sig komnu og raun ber vitni.

Það var ágætt að fá þann inngang sem rakti það að þetta er einsdæmi í sögu lýðveldisins. Það er einsdæmi í sögu lýðveldisins að menn hyggist standa að stjórnarskrárbreytingum með þessum hætti, að formenn tveggja tiltekinna flokka taki sig saman og komi með svona snöggsoðið mál inn á þing á lokadögum og ætli því afgreiðslu.“

Þetta var tilvitnun í fjármálaráðherra til að halda því til haga.

Í sömu umræðu sagði hv. þm. Jón Bjarnason, formaður þingflokks Vinstri grænna, sem þá var líka í stjórnarandstöðu, með leyfi forseta:

„Þetta frumvarp hér til stjórnarskipunarlaga sem hefur verið rætt í dag og hæstv. forsætisráðherra hefur mælt fyrir er, eins og fram hefur komið í ræðum, sérstakt fyrir það að einungis tveir flokkar leggja það fram, stjórnarflokkarnir. Það er flutt af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hér hefur komið fram“ — og ég undirstrika sérstaklega næstu orð — „að með þessum vinnubrögðum er á vissan hátt brotin hefð eða a.m.k. góðar vinnureglur og siðvenjur sem hafa ríkt um stjórnarskrárbreytingar almennt, þ.e. að þær séu unnar og undirbúnar í samkomulagi þingflokka á Alþingi hverju sinni og að þar sé ekki flanað að breytingum eða lagðar fram óunnar eða lítt unnar tillögur eins og hér er verið að gera. Það hefur verið hyllst til að ná víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingar, um breytingar á stjórnarskránni, og þá frekar verið gætt íhaldssemi í þeim efnum til að fara þar ekki fram með ósætti.“

Ég ætla að halda áfram að vitna í hv. þingflokksformann Vinstri grænna því hann segir næst:

„Sú sátt er rofin með þessu frumvarpi af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og verða það að teljast afar óábyrg vinnubrögð, ekki síst af því að hér hefur starfað stjórnarskrárnefnd sem allir þingflokkar hafa átt aðild að og skilaði einmitt áliti nú á dögunum. Það verður því að teljast furðulegt að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, skuli undir lok kjörtímabilsins fara fram hjá stjórnarskrárnefnd með einhliða tillögur eins og hér er um að ræða. Það hefur ekki gefist vel að mínu mati, herra forseti, þegar stjórnarskránni hefur verið breytt í ósætti eða ekki verið fullt samkomulag um breytingarnar.“

Virðulegi forseti. Ég læt þessar tilvitnanir í umræðuna frá 2007 duga. Þær sýna allar hvaða hug núverandi stjórnarþingmenn báru til vinnubragðanna sem þá voru ástunduð. Nú stunda þeir sömu vinnubrögð og hreykja sér af. Fróðlegt væri að heyra frá þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingunni hvað breyst hefur frá árinu 2007. Ríkisstjórnin þá hafði vit á því að hlusta á minni hlutann, stjórnarandstöðuna. Hún ákvað að sýna stjórnarskránni og um leið minni hlutanum þá tillitssemi að knýja þessar breytingar ekki fram. Nú ætlar hins vegar minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með stuðningi Framsóknarflokksins að knýja fram það mál sem við ræðum núna með illu. Hlutur Framsóknarflokksins þá og nú er í raun umhugsunarefni út frá vinnubrögðum þeirra gagnvart stjórnarskránni. Fyrir liggur að Framsóknarflokkurinn stillti Sjálfstæðisflokknum upp við vegg 2007 (Gripið fram í.) vegna tillögu um stjórnlagabreytingarnar sem þá voru lagðar fram og sem betur fer dagaði uppi. Nú er það sami Framsóknarflokkur sem gerir breytingu á stjórnarskránni að pólitískri skiptimynt gegn því að tryggja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stuðning gegn vantrausti. Í umræðunni um málið hefur skýrt komið fram að eina ástæða þess að ekki tókst að ná samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn um þetta mál er sú að Framsóknarflokkurinn vill ekki semja um stjórnlagaþingið. Raunar hefur skýrt komið fram, ekki síst af hálfu formanns sérnefndar um stjórnarskrármál, að samningar við Sjálfstæðisflokkinn koma ekki til greina. Orð hafa verið látin falla í þá veru að það væri Sjálfstæðisflokknum hollt að finna og skilja að hann er í minni hluta og geti ekki lengur stjórnað. Sú tíð væri liðin að Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu.

Í þessum ummælum kemur fram ótrúlega heiftúðug afstaða gagnvart stærsta þingflokknum á Alþingi. Hér hafa verið látin falla orð um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi setið í stjórn sl. 18 ár og þess vegna hafi hann svo gott af því að vera utan stjórnar. Það er talað hér af hálfu annarra stjórnmálaflokka eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í meirihlutastjórnum síðustu 18 ár. Það vill svo til, ef menn skyldu ekki muna það, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn sl. 18 ár í boði Alþýðuflokksins, Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Hann hefur aldrei verið einn í stjórn. Hvað sem þessir stjórnmálaflokkar segja verða þeir að axla þá ábyrgð að þeir vildu frekar leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda samfellt í 18 ár en að mynda sjálfir stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Það eru staðreyndir, virðulegi forseti, sem stjórnmálaflokkarnir á þingi geta ekki hlaupist undan og þeir geta ekki sagt að Sjálfstæðisflokkurinn einn beri ábyrgð á því ástandi sem er. Sjálfstæðisflokkurinn axlar þá ábyrgð sem honum ber en aðrir stjórnmálaflokkar skulu gera svo vel og gera það líka. Svo bíta þessir flokkar höfuðið af skömminni með því að segja við sjálfstæðismenn: Þið eruð í málþófi, þegar við leyfum okkur að ræða þessi makalausu vinnubrögð um stjórnarskrána sem þeir sjálfir lýstu svo vel árið 2007 og með þeim vinnubrögðum tókst þeim að fá stjórnina til að hlusta og hætta við. Sjálfstæðismenn þurfa hins vegar að búa við það að á þá er ekki hlustað. Framsögumenn frumvarpsins hafa ekki einu sinni sýnt flokknum þá virðingu að vera í þingsalnum til að hlusta. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að það eru mér sérstök vonbrigði að ríkisstjórn sem fyrsti kvenforsætisráðherra veitir forustu skuli ætla að komast í sögubækurnar fyrir það að knýja fram stjórnarskrárbreytingar í trássi við vilja stærsta þingflokksins á Alþingi. Með því gerist það öðru sinni frá lýðveldisstofnun að stjórnarskrárbreytingar eru knúnar fram með þessum hætti. Kringumstæður eru hins vegar allt aðrar.

Fyrir fram hefði maður ekki trúað því að fyrsti kvenforsætisráðherrann vildi komast í sögubækurnar fyrir þessar sakir. Það voru nefnilega stórkostleg tímamót 1. febrúar sl. þegar hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, varð fyrst kvenna á Íslandi til að verða forsætisráðherra og það var sérstaklega ánægjulegt að það gerðist 1. febrúar af því að þá voru 105 ár liðin frá því að fyrsti íslenski ráðherrann tók við. Ég held að allir, ekki síst konur, hafi bundið miklar væntingar við að kona settist í fyrsta sinn í forsætisráðherrastól og skiptir þá ekki máli hvort um væri að ræða pólitíska samherja eða ekki. Ég verð hins vegar að viðurkenna að árið 1978 þegar hæstv. forsætisráðherra fór fyrst í stjórnmál var ég ekki búin að ná meiri pólitískum þroska en þeim að ég kaus hana í prófkjöri Alþýðuflokksins af því að mér leist svo sérstaklega vel á þessa konu, enda hefur hún staðið undir væntingum mjög margra sem kusu hana til stjórnmálaþátttöku. Hún er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins ef ekki sá vinsælasti. Þess vegna held ég líka að flestir hafi trúað því og treyst að þegar kona kæmi í forsætisráðherraembættið mundu ný vinnubrögð sjást. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur notið þess trausts sem hún nýtur m.a. af því að hún hefur verið talin talsmaður lítilmagnans, talsmaður nýrra vinnubragða, alls ekki viðriðin pólitísk hrossakaup. Það eru þess vegna sérstök vonbrigði að ríkisstjórn undir hennar forustu skuli ætla að knýja fram með illu og í algerri andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn þær makalausu breytingar á stjórnarskránni sem við ræðum hér. Ég segi það hreinskilnislega að það eru mér mikil vonbrigði að þegar til pólitískra hrossakaupa kemur skipti engu máli hvort það er kona eða karl í stóli forsætisráðherra. Ég held að við konur höfum reiknað með öðru. Við höfum haldið því fram að ástæðan fyrir því að það væri svo mikilvægt að við værum í stjórnmálum væri sú að við ástunduðum önnur vinnubrögð en karlarnir. Og síst af öllum hefði ég trúað hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur til að ástunda vinnubrögð karlanna að þessu leyti. Hún er síðasti kvenstjórnmálamaðurinn sem ég hefði trúað til þess. Það eru mér þess vegna ómæld og enn þá meiri vonbrigði að þurfa að horfa upp á þetta.

Virðulegi forseti. Eins og félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum hafa vikið að í umræðunni var mælt fyrir því frumvarpi sem við ræðum enn 6. mars, 1. umr. lauk 11. mars. Umsagnaraðilum var gefin ein vika til að gefa umsagnir sínar. Nú kalla alþingismenn minnihlutastjórnarinnar og þingmenn Framsóknarflokksins það málþóf að þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast vera þeir einu sem vilja umgangast stjórnarskrána af virðingu og að henni skuli ekki breytt nema í víðtækri pólitískri sátt. Þetta eru sömu flokkarnir og lýstu svo ágætlega vinnubrögðum af þessu tagi árið 2007 og ég leyfi mér að gera öll orð hv. formanns þingflokks Vinstri grænna að mínum þegar kemur að þessum vinnubrögðum, þ.e. ummælin frá 2007 sem ég rakti hér og las upp áðan.

Réttlætt hefur verið að knýja þessa umræðu fram með því að segja að þjóðin bíði í ofvæni eftir þessari stjórnarskrárbreytingu, þjóðin bíði í ofvæni eftir stjórnlagaþingi. Virðulegi forseti. Ef horft er á þær rúmlega 30 umsagnir sem borist hafa er a.m.k. ljóst að fulltrúar þjóðarinnar sem þar gáfu sér tíma og töldu sig hafa tíma til að gefa umsögn bíða ekki óþreyjufullir eftir þessari stjórnarskrárbreytingu. Þvert á móti, virðulegi forseti, mæla þeir flestir gegn þessum vinnubrögðum.

Ég ætlaði næst, virðulegi forseti, að fara almennt yfir umsagnir umsagnaraðila. Ég sé að tími minn er á þrotum í þessari umferð þannig að ég verð að láta það bíða en ég mun fara yfir það næst þegar ég kem upp ásamt efnislegum athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.