136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Höft á gjaldeyrisviðskiptum eru aldrei æskileg. Við gripum til þeirra fyrr á þessum vetri af sérstökum ástæðum sem allir þekkja og enn var ákveðið að herða á þeim við aðstæður sem við ræddum fyrr í vikunni. Höft á gjaldeyrisviðskiptum hafa margvísleg skaðleg áhrif á íslenskt efnahagslíf, þau stuðla að röngu verði á krónunni, skekkja verð á vöru og þjónustu og auka líkur á röngum fjárfestingarákvörðunum. Þau valda því líka að íslenskur fjármálamarkaður getur einangrast frá umheiminum þar sem erlendir aðilar munu forðast að koma með nýtt fé inn á íslenska markaði. Þá útiloka þau ýmis gagnleg fjármagnsviðskipti eins og t.d. varnir vegna gengisáhættu. Því er mjög mikilvægt að finna leiðir til að afnema höft á fjármagnshreyfingum. Þetta hefur komið mjög vel fram á síðustu vikum, sannleikurinn er nefnilega sá að menn sjá mjög fljótt við svona höftum, það sáum við þegar menn komu auga á smuguna sem alltaf skapast í svona höftum. Þá gerist það með ógnarhraða að menn nýta sér hjáleiðirnar fram hjá höftunum og ég ætla að taka tvö dæmi.

Fyrra dæmið er frá sérhæfðum iðnaði sem tengist sjávarútvegi. Aðili, sem hefur lagt mikinn metnað í að byggja upp starfsemi hér á landi þótt margt hafi mælt með því á hágengistímanum að hann færði starfsemi sína úr landi, hefur búið við það undanfarna mánuði að hráefni hér á landi var yfirboðið í krafti þessara gengishafta, gjaldeyrishafta, og þess að í raun hefur verið tvenns konar gengi á íslensku krónunni. Þannig hefur hráefnið verið yfirboðið, það hefur verið fært úr landi þar sem það verður síðan unnið og þannig er grafið undan íslenskri atvinnustarfsemi og samkeppnisstaðan öll úr lagi færð.

Annað dæmi úr íslenskum sjávarútvegi, en gæti þess vegna verið úr öðrum framleiðsluiðnaði, er að erlendur aðili kemst í samband við íslenskan eða erlendan aðila hér á landi sem á innstæður í banka, við skulum segja 100 millj. kr. Hann getur, t.d. í gegnum millilið, komið á viðskiptum sem ganga út á það að erlendi aðilinn kaupi 100 milljónirnar af íslenska eða erlenda aðilanum á lægra gengi sem svarar því að hann kaupi þennan pakka á 70–80 millj. kr., miðað við skráð gengi Seðlabankans. Greiðslan fer fram í erlenda gjaldmiðlinum í útlöndum þannig að hann kemur aldrei heim en krónurnar, 100 milljónirnar, eru millifærðar inn á bankareikning sem upphaflega hafði verið stofnað til. Síðan fer þessi erlendi aðili með 100 milljónirnar sínar og kaupir vörurnar á niðursettu verði og getur síðan, í krafti þessa, undirboðið íslenska framleiðslu og íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum. Sá er kjarni málsins, þetta er það sem við glímum við.

Höftin sem við settum upphaflega til að styrkja krónuna hafa þannig grafið undan atvinnusköpuninni. Þá vaknar auðvitað spurningin: Hvað er hægt að gera? Í athyglisverðri grein sem Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur birti 24. febrúar í Morgunblaðinu segir hann að í raun séu til tvær leiðir, annars vegar að koma hinum erlendu eignum úr landi, fram hjá gjaldeyrismarkaðnum með eignaskiptum, og hins vegar að binda þær hér á landi til lengri tíma og heimila losun úr landi í áföngum sem samræmast greiðslugetu þjóðarbúsins. Líklegast sé skynsamlegast að gera hvort tveggja. Í grein Yngva segir jafnframt:

„Innlendir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki, sjóðir og bankar hafa á undanförnum árum eignast margvíslegar eignir erlendis. Hugsanlegt er að þeir erlendu aðilar sem nú eru bundnir með fjármagn sitt hér á landi hafi áhuga á að skipta á þessum eignum og innlendum eignum sínum. Þessi áhugi getur verið gagnkvæmur þar sem rekstraraðstæður innlendra aðila erlendis hafa snúist á verri veg við fall íslenskra banka. Vitað er að ýmsir kostir af þessu tagi hafa verið til skoðunar að undanförnu og áhugi verið til staðar af beggja hálfu. Skipti á eignum með þessum hætti hafa ekki áhrif á gengi krónunnar.“

Ég vil segja, virðulegi forseti, að það er ákaflega mikilvægt að við vinnum mjög hratt í þessum efnum. Það haftafyrirkomulag sem við búum við er hugsað til skamms tíma og við megum ekki festa okkur í þessum höftum. Afleiðingarnar eru þegar farnar að koma fram, eins og við höfum séð, og eru farnar að skaða íslenskt atvinnulíf. Það er bara tímabundið hvenær menn finna leiðir jafnvel fram hjá þeim miklu höftum sem við höfum sett á núna. Ég er alveg sannfærður um það að á meðan við sitjum hér og stöndum og ræðum þessi mál eru fjölmargir aðilar einmitt að velta fyrir sér hvernig þeir geta fundið leið fram hjá þessu og grætt á því fyrirkomulagi sem er við lýði í dag.

Það er regla sem við þekkjum úr haftabúskapnum að hann elur af sér og skapar svartamarkaðsbrask og það er auðvitað að gerast. Menn fara fram hjá þessu með óeðlilegum hætti, ekki endilega ólöglega en óeðlilega. Ágóðavonin drífur menn eðlilega áfram og í skjóli svona ástands munu hér þrífast óeðlilegir viðskiptahættir.

Þess vegna ákvað ég að taka þetta mál hér upp, þetta er eitt af þeim brýnu málum sem við stöndum frammi fyrir og á meðan við finnum ekki lausn á þessu er tómt mál að tala um að við getum styrkt gengi krónunnar til lengri tíma, sem er þó eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum núna frammi fyrir.