136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:36]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég get kannski ekki komið með mikil andsvör því að ég fæ ekki betur séð en að sjónarmið mín og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar fari að verulegu leyti saman í þessu máli. Ég get heils hugar tekið undir með honum um skaðsemi hafta og við þurfum ekki að leita langt til að finna dæmi um slíkt. Það eru fjölmörg dæmi um höft úr Íslandssögunni en þau voru nánast algengasta efnahagsráðstöfun Íslands áratugum saman og undantekningarlítið eða -laust skiluðu þau ekki tilætluðum árangri og höfðu í för með sér ýmsa fylgikvilla sem voru jafnvel verri viðureignar en sóttin sem höftunum var ætlað að lækna.

Við búum engu að síður við höft núna og þau voru sett á í haust sem neyðarráðstöfun til skamms tíma. Það verður auðvitað að skoða þau í því ljósi. Í haust voru þau sjónarmið uppi og voru notuð til að rökstyðja það að setja höftin á að mjög brýnt væri að ná stöðugleika í gengi íslensku krónunnar, sérstaklega vegna erlendra skulda landsmanna. Það liggur í hlutarins eðli að miklar gengissveiflur og mikið gengisfall gerir þeim sem skulda í erlendri mynt erfitt fyrir eins og öll dæmi undanfarinna mánaða sýna.

Ég held að þessi rök hafi kannski verið að einhverju leyti réttmæt þótt ég hafi þá og sé reyndar enn mjög efins um að það hafi verið rétt á sínum tíma að grípa til hafta. Hvað sem því líður búum við núna við höftin og verðum að finna leið til að sigla út úr þeim. Leiðirnar út úr höftunum hljóta að fela í sér með einum eða öðrum hætti að ná ró á fjármálamarkaði á Íslandi og ná þá sérstaklega ró á markaðnum fyrir blessaða krónuna. Til þess hafa verið nefndar ýmsar leiðir, m.a. rakti hv. þingmaður ágætlega þær leiðir sem Yngvi Örn fjallaði um í blaðagrein sinni og ég held að óhætt sé að taka undir með honum um að þetta eru þær leiðir sem verið er að skoða. Þær fela allar í sér með einum eða öðrum hætti að skipta á þolinmóðu og óþolinmóðu fjármagni þannig að þeim allra óþolinmóðustu, sem ætluðu sér aldrei að eiga hér háar fjárhæðir til langs tíma og voru jafnvel bara með fé sitt hér til nokkurra daga þegar það festist bak við gjaldeyrishöft, er hleypt úr landi og það mundi m.a. hafa í för með sér að minni þrýstingur yrði til að koma á svörtum eða tvöföldum markaði vegna þess að væntanlega eru það þeir allra óþolinmóðustu sem helst leita inn á þann markað til að komast fram hjá höftunum.

Þau eignaskipti gætu auðvitað verið með ýmsum hætti. Rætt hefur verið um aðkomu lífeyrissjóða og sjálfsagt er að skoða það ef lífeyrissjóðirnir sjá sér hag í því. Einnig gætu aðrir aðilar sem eiga erlendar eignir og eru reiðubúnir að skipta á þeim fyrir innlendar komið að málinu. Sú leið að ríkið eða Seðlabankinn bjóði út skuldabréf til einhvers tíma, kannski nokkurra ára, sem eru þess eðlis að þegar bréfin koma á gjalddaga má skipta þeim yfir í evrur eða annan erlendan gjaldmiðil og flytja úr landi, getur að mínu mati einnig prýðilega komið til greina, raunar væri sennilega best að fara einhverja blöndu af báðum leiðunum. Þess ber þó að geta að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið nokkuð tortrygginn á þessar leiðir og það stendur í raun bara upp á Íslendinga að sannfæra hann um ágæti þeirra, auk þess sem sjálfsagt má skoða einhverjar fleiri leiðir og bera þær þá jafnframt undir sjóðinn.

Allar þessar aðgerðir mundu þá miða að því að draga úr þrýstingnum sem fyrirsjáanlegur er vegna þess mikla fjár sem hér er bundið og væntanlega vill að einhverjum hluta fara úr landi við fyrsta tækifæri. Auk þess þurfum við að skapa hér almennt góð skilyrði fyrir efnahagslífið og þar með fjárfesta þannig að þeir sjái sér hag í því að veðja á Ísland. Allar almennar góðar efnahagsaðgerðir stuðla að því, t.d. það að ganga almennilega frá skilunum á milli nýju og gömlu bankanna, endurreisa bankakerfið, gefa sparisjóðakerfinu aukinn kraft, ná tökum á ríkisfjármálunum — allt þetta stuðlar að stöðugleika og eykur þar með líkurnar á því að erlendir, sem og innlendir, aðilar vilji veðja á Ísland.