136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:51]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Allt það sem gert er á sér yfirleitt einhverjar ástæður og orsakir. Það eru ekki afleiðingar af sjálfu sér og höftin nú eru ekki sett vegna þess að menn vilji hafa höft heldur vegna þess að menn fóru illa með frelsið, frelsið var of mikið og þeir sem nýttu sér það fóru illa með það, sjálfum sér til skaða og þjóðinni. Svo var komið að við réðum ekki við vandann af eigin rammleik og við erum bónbjargarmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nokkurra seðlabanka í Evrópu. Við þurfum aðstoð þessara aðila til að komast út úr þeim vanda sem frelsið eða þeir sem fóru illa með frelsið komu íslenskri þjóð í.

Þess vegna skil ég ekki, virðulegi forseti, hvaða tilgangi þessi umræða þjónar nema þá þeim að fá menn til að halda að það sé af illmennsku einni saman eða af pólitískri afturhaldshyggju sem menn hafa ákveðið að taka upp höft og það séu þá baráttumenn frelsisins sem eru á móti þeirri vondu ráðstöfun, sem ætli sér í komandi kosningum að sannfæra kjósendur um réttmæti sjónarmiða sinna og skaðvald þeirra sem fylgja þeirri leið sem við erum að feta af illri nauðsyn. Menn mega ekki, virðulegi forseti, reka svona tvöfalda kosningabaráttu. Þessi málflutningur er hættulegur vegna þess að hann er til þess að blekkja fólk. Við þurfum að búa við þessar aðstæður, vonandi ekki lengi, en við þurfum að gera það þar til við höfum ráðið fram úr þeim vanda sem við erum í.

Við skulum ekki halda því fram þegar svo er komið að við getum aflétt þeim höftum sem við búum við í dag, að menn geti fengið aftur það sama frelsi og þeir höfðu áður. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að sömu menn fái seinna sömu tækifæri til að fara jafnilla með íslenska þjóð og þeir gerðu áður.