136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Já, herra forseti, haftastefna vekur hv. þm. Illuga Gunnarssyni ugg og hann sagði áðan að höft eyðileggi og skemmi efnahagskerfið í landinu. Ég verð að segja, herra forseti, að það er fleira en höft sem gera það. Stefna Sjálfstæðisflokksins undanfarin 18 ár hefur gert nákvæmlega þetta, skemmt og eyðilagt efnahagskerfið og varð þess valdandi að sl. haust varð að taka upp gjaldeyrishöft, illu heilli, en til hvers? Til þess að mæta snöggu gengisfalli sem varð á íslensku krónunni og miklum þrýstingi sem var á gjaldeyrisvaraforðann.

Ég verð að segja alveg eins og er að þessi gjaldeyrishöft eru sannarlega í boði Sjálfstæðisflokksins og ekki nokkurs flokks annars. Menn segja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé ekki hrifinn af þessu. En í samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem undir skrifa Davíð Oddsson og Árni M. Mathiesen, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, er fjallað um þetta í 22. gr. Í þeim samningum sem gerðir voru milli þáverandi ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lögð blessun yfir þau höft sem þurfti að grípa til vegna efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins og þess öngstrætis sem hún hafði leitt þjóðina í.

Það var því nöturlegt þegar í ljós kom að gamla sjálftökuliðið var enn á vaktinni tilbúið til þess að blóðmjólka þjóðina, takandi út úr landinu tífalt meira en það sem hafði verið í sama mánuði í fyrra. Þegar Sjálfstæðisflokknum er gerð grein fyrir því hvernig komið er, nei takk, þá eru þeir ekki tilbúnir til þess að setja undir — ekki þennan leka á gjaldeyri heldur flóð af gjaldeyri út úr landinu. Fyrst reyndu þeir að versla með málið og notfæra sér þannig neyðarástand (Forseti hringir.) og svo fóru þeir í málþóf með það. Ég verð að segja, herra forseti, (Forseti hringir.) að orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar í þessu ljósi eru ekki marktæk.