136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[14:00]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er að frumkvæði hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Einars K. Guðfinnssonar, og ber að þakka fyrir það. Við ræðum veika stöðu krónunnar sem gjaldmiðils sem er ástæðan fyrir umræðunni og þá staðreynd að krónan er því sem næst ónýtur gjaldmiðill. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna að menn rekur ekki minni til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sett sér stefnu í gjaldmiðilsmálum þannig að það er full ástæða til að óska eftir henni eða leiðréttingu á því ef okkur misminnir.

Hv. þm. Árni Páll Árnason veifaði áðan skýrslu Viðskiptaráðs sem væri hún hans eigin þar sem hann horfir til lengri tíma. Það er alveg rétt, það er nauðsynlegt að líta til lengri tíma en það er líka nauðsynlegt að setja sér skammtímamarkmið. Vil ég af því tilefni vekja athygli á þingsályktunartillögu framsóknarmanna í 18 liðum sem hafa að geyma tillögur til efnahagsmála. Ætla ég að fá að minnast hér á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi leggja framsóknarmenn til að samið verði við erlenda eigendur krónueigna. Það er talið að erlendir aðilar eigi eignir í íslenskum krónum upp á 350–500 milljarða. Þar er um að ræða jöklabréf en einnig ríkisskuldabréf og innstæður á bankareikningum. Þetta skapar þrýsting á krónuna til veikingar og það er ekki hægt að afnema gjaldeyrishöft fyrr en þessum þrýstingi hefur verið aflétt.

Við viljum gjarnan að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti vegna þess að lífeyrissjóðir eiga miklar eignir erlendis og þeim á að gera kleift að selja erlendar eignir sínar og fjárfesta innan lands ef þeir kjósa svo. Þannig gætu lífeyrissjóðirnir keypt krónur á hagstæðum kjörum af þeim erlendu aðilum sem eiga krónueignir og vilja selja þær.

Þessu til viðbótar má nefna samráðsvettvang með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum og að settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur. Ég mundi vilja óska eftir því að hæstv. viðskiptaráðherra brygðist við með athugasemdum (Forseti hringir.) sínum og hugmyndum um þessi mál.