136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[14:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir svörin en um leið harma það hvernig þessi umræða hefur dreifst út um víðan völl. Ég tók upp málið með mjög afmörkuðum hætti vegna þess að við höfum hér tvær mínútur á mann til að ræða málið, hálftíma alls. Því miður féllu mjög margir þingmenn í þá gryfju að reyna að skauta fram hjá efni málsins og fóru að tala um allt aðra hluti án þess að gera minnstu tilraun til að fjalla um það efnisatriði sem var tilefni þessarar umræðu og ég gerði grein fyrir í ræðu minni.

Hv. þm. Árni Páll Árnason var alveg sérstakur kapítuli — eins og alltaf. Hann talaði eins og þetta væri sérstakt ábyrgðarmál Sjálfstæðisflokksins þegar hann veit vel að það var fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin Sigurðsson, sem á sínum tíma flutti það frumvarp sem nú er orðið að lögum um þessi gjaldeyrishöft.

Þetta finnst mér þó ekki vera kjarni málsins. Kjarni málsins er sá sem ég nefndi áðan, við erum í gjaldeyrishöftum. Þau voru hugsuð sem tímabundin ráðstöfun við sérstakar aðstæður sem við öll þekkjum en öllum hlaut að vera ljóst að verkefnin fram undan væru síðan þau að feta sig út úr þessari leið. Það er alveg ljóst mál að ef við gerum það ekki munum við einfaldlega sökkva dýpra ofan í þetta haftafen, alveg eins og við sjáum að er að gerast. Ég spái því að ef ekkert gerist í því að koma okkur út úr þessu verður það einfaldlega þannig að fyrir mitt þetta ár verður flutt nýtt frumvarp til að stoppa í einhver önnur og fleiri göt.

Ég vék að nokkru áðan sem hæstv. viðskiptaráðherra tók upp, ég nefndi tiltekin dæmi, tilteknar leiðir og tilteknar aðferðir og hæstv. viðskiptaráðherra svaraði því sem svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri á móti því að fara þá leið. Það er hryggilegt ef það er þannig en þá verður maður að spyrja sem svo hvort ríkisstjórnin sé hætt að reyna að koma okkur út úr þessum gjaldeyrishöftum. Ég spyr líka hvort ríkisstjórnin hafi þá mótað einhverja aðra stefnu, aðrar leiðir í því sambandi. Ég trúi ekki öðru en að menn líti svo á að það sé forgangsverkefni að koma okkur út úr þessum gjaldeyrishöftum. Ég spyr líka hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi þá lagt fram aðra valkosti í þessum efnum eða er það svo að við eigum að bíða átekta og álengdar? (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn hefur nú setið í tvo mánuði og ég (Forseti hringir.) gat ekki heyrt í máli hv. stjórnarliða (Forseti hringir.) eða hæstv. ráðherra að nokkrar tillögur væru (Forseti hringir.) uppi um það hvernig við færum (Forseti hringir.) út úr þessum gjaldeyrishöftum.