136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

fundarstjórn forseta.

[14:10]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta er sú að ég leit svo á að til þessarar umræðu utan dagskrár væri stofnað í þeim tilgangi að fá fram mikilvæga umræðu um alvarlega stöðu í gjaldeyris- og efnahagsmálum okkar Íslendinga. Þá bregður svo við að hér gengur fram rétt eina ferðina hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og talar um gamla sjálftökuliðið. Þetta var innlegg vinstri grænna í málefnalega umræðuna.

Þessi hv. þingmaður hefur tamið sér og lætur sér sæma að snúa allri umræðu upp í nánast ærumeiðandi árásir á einstaka þingflokka eða einstaka þingmenn og talar um gamla sjálftökuliðið. Ég mótmæli þvílíku orðbragði. Ég mótmæli þvílíkri framgöngu í málefnalegri umræðu á hinu háa Alþingi. Þetta er þingmanninum til skammar og hlýtur að koma til umræðu hjá hæstv. forseta á vettvangi (Forseti hringir.) formanna þingflokkanna, að svona skuli gengið fram á (Forseti hringir.) Alþingi þegar við erum að ræða (Forseti hringir.) alvarleg mál.