136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

fundarstjórn forseta.

[14:13]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Þriðjudaginn 31. mars, á aukafundi í umhverfisnefnd, var um það talað að fundur yrði haldinn á hefðbundnum tíma á miðvikudagsmorgni klukkan hálfníu. Ég greindi formanni nefndarinnar frá því að meiri hluti nefndarinnar hefði jafnvel áhuga á að afgreiða út af þeim fundi mál sem þá átti að vera til umræðu.

Seint um kvöldið var síðan reglulegum fundi aflýst. Það var reyndar svo seint að ég mætti til fundarins klukkan hálfníu á miðvikudagsmorgni án þess að vita að honum hefði verið aflýst. Ég ræddi það síðan við formann nefndarinnar, hann ætlaði að finna annan tíma og síðan var boðaður fundur 6. apríl, á mánudaginn kemur.

Sama dag sendi meiri hluti nefndarinnar boð til formannsins um það að hann óskaði eftir því að fundur yrði haldinn í nefndinni. Daginn eftir reyndist formaðurinn vera veikur og sömu boðum var komið til varaformanns nefndarinnar sem kom þeim til formannsins, að mér skilst. Í dag (Forseti hringir.) hef ég síðan eftir ítrekaðar tilraunir, herra forseti, ekki náð í formann nefndarinnar en ég fer þess á leit við hæstv. forseta að hann hlutist til (Forseti hringir.) um það að fundur verði haldinn í nefndinni (Forseti hringir.) því að það mál sem hér um ræðir er flutt af meiri (Forseti hringir.) hluta þingmanna á hv. Alþingi.

(Forseti (EMS): Vegna orða hv. þingmanns mun forseti að sjálfsögðu fara yfir málið og kanna ástæður þess að ekki var haldinn fundur í nefndinni.)