136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

orð þingmanns í utandagskrárumræðu -- umræða um dagskrármál -- fundur í umhverfisnefnd.

[14:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Mathiesens um að meiri hluti umhverfisnefndar hefur óskað eftir því að fundur yrði haldinn í umhverfisnefnd og tilgreint ákveðið málefni sem við viljum ræða sem er sérákvæði Íslands í loftslagsmálum. Það var þannig að formaður nefndarinnar forfallaðist, veiktist, og eins og í þingsköpum Alþingis kemur fram, með leyfi forseta, þá segir:

„Formaður, eða varaformaður í forföllum hans, boðar til fundar í nefnd og stýrir fundum hennar. Ef formaður og varaformaður eru forfallaðir, eða varaþingmenn sitja fyrir þá, felur nefnd öðrum að gegna formannsstörfum.“

Það kom fram í samtali sem ég átti við hv. þm. Atla Gíslason, sem er varaformaður nefndarinnar, að hann hafi reynt að vísa málinu frá sér. En það stendur alveg skýrt þarna að ef formaður er ekki til staðar er það hlutverk varaformanns að gegna störfum formanns. Það hefði verið mjög lítið mál (Forseti hringir.) þar sem meiri hluti nefndarinnar var þarna staddur að boða til þessa fundar og (Forseti hringir.) taka fyrir þetta dagskrármál sem meiri hluti þingsins (Forseti hringir.) stendur á bak við.