136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

orð þingmanns í utandagskrárumræðu – umræða um dagskrármál – fundur í umhverfisnefnd.

[14:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sé ekki og sá ekki neina ástæðu til að draga til baka það sem ég sagði um gamla sjálftökuliðið sem var tilbúið á vaktinni til að sölsa undir sig gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Ég dró það ekki til baka og dreg heldur ekki til baka að þegar upplýst varð um þessa ósvinnu brast Sjálfstæðisflokkinn úthald. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn til að stoppa upp í þetta gat, setja undir þennan leka. (Gripið fram í.) Ég hef, herra forseti, hvorki dregið til baka það sem ég sagði um sjálftökuliðið né afstöðu Sjálfstæðisflokksins, enda engin ástæða til, það er allt saman satt og rétt.