136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

orð þingmanns í utandagskrárumræðu – umræða um dagskrármál – fundur í umhverfisnefnd.

[14:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ræða hér örstutt um stóra umhverfisnefndarmálið sem hér hefur borið á góma. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Árna Mathiesen, hann hafði samband við mig, ég fékk tölvupóst frá nefndarmönnum í umhverfisnefnd í gær með ósk um fund í umhverfisnefnd. Ég framsendi þann póst strax til formanns nefndarinnar og fékk þau svör til baka að hann mundi sjá um að halda þennan fund. Ég lét hv. þm. Árna M. Mathiesen vita af því. Mér hafa ekki borist erindi sem varaformanni síðan um að þessi viðbrögð mín hafi verið ófullnægjandi á einn eða annan hátt.