136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:27]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við það að klukkan var farin að tifa á mig áður en ég kom í ræðustól, hún var komin hálfa mínútu fram yfir.

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að eitthvað bilerí er á klukkunni en því verður að sjálfsögðu kippt í liðinn og mun ekki bitna á ræðutíma hv. þingmanns.)

Ég þakka fyrir. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til stjórnarskipunarlaga og ég held að full ástæða sé til að nefna það eina ferðina enn að við sjálfstæðismenn gagnrýnum forgangsröðun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins á hinu háa Alþingi. Á fundi þingflokksformanna í hádeginu var hafnað tilboði sjálfstæðismanna um að taka aðra dagskrárliði á dagskrá og sérstaklega vil ég nefna umræðu um Helguvík. Þar er um brýnt mál að ræða, atvinnumál hér á landi, sem full ástæða er til að taka til umræðu.

Miklum tíma hefur verið eytt, bæði í sölum Alþingis og í sérnefnd um stjórnarskrármál, í að ræða um breytingar á stjórnarskránni og að setja á laggirnar stjórnlagaþing. Á meðan bíða á dagskránni mikilvæg mál fyrir bæði heimili og fyrirtæki í landinu og það verður að segjast eins og er að fyrsta mánuðinn eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum 1. febrúar var öll áhersla og ótrúlega mikil orka lögð í að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, fyrst og fremst í þeim tilgangi að koma seðlabankastjórum frá. Nú á síðustu vikum hefur hins vegar umræða um breytingar á stjórnarskrá og stjórnlagaþing yfirtekið umræðuna.

Virðulegi forseti. Hvernig á ég að túlka blikkið á mig?

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram að enn hefur ekki náðst að laga klukkuna en við vonum að það verði mjög fljótlega og þá mun blikkið hætta og þetta allt verða eðlilegt, en eins og forseti sagði áðan mun þetta ekki bitna á ræðutíma hv. þingmanns.)

Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað gengið eftir því að forgangsraða með öðrum hætti. Ríkisstjórnin hefur kallað sig aðgerðastjórn. Þetta orð, aðgerðastjórn, lýsir framtaki og snerpu en heitið hefur snúist upp í andhverfu sína. Ríkisstjórnin er verkkvíðin og í afneitun og leggur alla krafta sína í mál sem litlu skipta varðandi hag þjóðarinnar. Við hljótum að átelja það.

Ástandið í samfélaginu er þannig að atvinnuleysi eykst jafnt og þétt og eru nú um 18 þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Velflestar fjölskyldur og heimili landsins þurfa að endurskipuleggja framtíðaráform sín með hliðsjón af gerbreyttum aðstæðum með tilheyrandi andvökunóttum og áhyggjum af því sem er fram undan og bíður þeirra. Fyrirtæki berjast í bökkum og námsmenn örvænta um hag sinn og gjaldþrot heimila og fyrirtækja eru yfirvofandi. Við sjáum jafnframt að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er í uppnámi og tímaáætlun hefur raskast. Það kom m.a. fram á opnum fundi fjárlaganefndar með hæstv. fjármálaráðherra fyrr í vikunni. Samkvæmt spám áttu vextir að hafa lækkað og gengið rétt sig af. Verðbólguþrýstingur virtist hafa minnkað á síðustu dögum eða vikum en nú berast fregnir af því að sökum þess að gengi krónunnar hefur veikst á síðustu dögum sé nýkominn aukinn þrýstingur á verðhækkanir hjá innflutningsfyrirtækjunum og þá spyr maður aftur um verðbólguna.

Því má ljóst vera að ríkisstjórnin ræður ekki við þau verkefni sem fyrir liggja og einnig er umhugsunarefni hvort ríkisstjórnin er ekki að beita hinni frægu smjörklípuaðferð í þessum efnum. Er hún með áherslum sínum á breytingar á stjórnarskránni og stjórnlagaþing að svara kalli fólksins eða beina athyglinni frá vanhæfni sinni til að taka á málum? Það er meira að segja svo komið að jafnvel framsóknarmönnum er ofboðið og hafa þeir þó látið ýmislegt yfir sig ganga.

Í grein í vefriti í gær birti t.d. Gunnar Bragi Sveinsson, nýr oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, grein þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Þolinmæði okkar framsóknarmanna virðast engin takmörk sett. Við lofuðum að verja ríkisstjórn falli gegn því að gripið yrði til ráðstafana til bjargar heimilum og fyrirtækjum. Á því hefur staðið en við verjum enn ríkisstjórnina. Þessi ákvörðun Framsóknarflokksins varð til þess að boðað var til kosninga eins og krafist hafði verið. Því má segja að kosningarnar séu í boði Framsóknarflokksins.“ — Ég vil vekja sérstaklega athygli á þessu orðalagi hjá framsóknarmanninum sjálfum, sem heldur áfram: „Það veit hins vegar ekki á gott fyrir mögulegt samstarf að stjórnarflokkarnir skuli líta svo á að þeim hafi verið færðir stjórnartaumarnir til að reka kosningabaráttu á kostnað almennings í stað þess að grípa til aðgerða. Óvinsælar aðgerðir eru slegnar af og látið að því liggja að verið sé að leita annarra lausna en meðan ríkir óvissa. Fremstur í flokki hefur farið núverandi heilbrigðisráðherra. Hvar eru tillögurnar? Hvar eru lausnirnar fyrir heimili og fyrirtæki? Hvar er skjaldborgin um heimilin?“

Þetta sagði nýr oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, maður sem hefur orð á sér fyrir að vera glöggur. Svo mörg voru þau orð.

Breytingar á stjórnarskránni og stjórnlagaþing hafa verið rökstudd með því að þau séu svör við kröfum fólksins í landinu. Vissulega hefur umræða í þessa veru verið áberandi á síðustu mánuðum. Í kjölfar bankahrunsins hefur jafnframt verið mikil eftirspurn eftir viðhorfum fræðimanna, stjórnspekinga og sérfræðinga á ýmsum sviðum samfélagsins og þeim stillt upp sem andstæðum stjórnmálamanna, sem mönnunum með réttu lausnirnar. Þeirri skoðun hefur jafnvel verið hreyft að fela fræðimönnum og háskólakennurum stjórn landsins. Í stjórnarskrárnefndinni sem hefur starfað undanfarnar þrjár vikur hefur verið kallað á álit slíkra sérfræðinga og annarra hagsmunaaðila sem málið varðar. Þetta er í samræmi við venjur Alþingis þegar frumvörp og þingsályktunartillögur eru til umræðu í nefndum þingsins. Að öllu jöfnu hefur Alþingi tekið mikið mark á umsögnum sem hafa borist til nefnda. Tillögur til úrbóta eru skoðaðar, hagsmunir metnir og viðvörunarorð virt. Slík vinnubrögð eru viðurkennd og til þess fallin að gera mál betur úr garði.

Nú ber svo við að viðvörunarorð fræðimanna, sérfræðinga og hagsmunaaðila eru virt að vettugi og það í máli sem varðar endurskoðun sjálfrar stjórnarskrár Íslands. Við hljótum að staldra við, nær allir umsagnaraðilar, sem eru um 30 talsins, vara við hraða málsins og segja að þetta þurfi að skoða mun nánar og ítarlegri umræðu þurfi. Stuttur umsagnarfrestur er gagnrýndur harðlega, varað er við því að hugtök eru óljós, óskýrð og þurfi betri yfirlegu. En fyrst og fremst er kallað eftir umræðu og skoðanaskiptum með opnum og vönduðum hætti.

Álit umsagnaraðila kristallast vel í umsögn Reykjavíkurakademíunnar sem segir í áliti sínu, með leyfi forseta:

„Tíminn er þó allt of naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru hér innan húss.“

Síðan gerir Reykjavíkurakademían verulegar athugasemdir um þau frumvarpsdrög sem liggja fyrir.

Viðskiptaráð segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Fyrir það fyrsta þá gerir Viðskiptaráð talsverðar athugasemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða þetta frumvarp með þeim hraða sem raun ber vitni. Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila.“

Samband íslenskra sveitarfélaga og laganefnd Lögmannafélags Íslands eru umsagnaraðilar sem að öllu jöfnu er tekið sérstakt tillit til vegna sérstöðu þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga eru samtök annars tveggja stjórnsýslustiga hér á landi og full ástæða til að taka tillit til sjónarmiða þeirra enda hefur það verið almenn regla innan þingsins að sjónarmið þeirra vegi þungt í allri umfjöllun um málefni er þá varðar. Sambandið segir eftirfarandi í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt.“

Með þessu er Samband íslenskra sveitarfélaga að sjálfsögðu að gagnrýna þá málsmeðferð sem viðhöfð er á hinu háa Alþingi.

Álit laganefndar Lögmannafélags Íslands hefur alla tíð verið virt enda eru Lögmannafélagið og laganefndin þekkt fyrir að koma með ítarleg, vel ígrunduð og vönduð álit og tekið er tillit til þeirra. Minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins hefur hins vegar tekið þá afstöðu að virða að vettugi varnaðarorð þeirra um breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Í áliti laganefndarinnar segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Virðulegi forseti. Við þingmenn hljótum að taka undir þessar aðvaranir og virða þær. Þessi vinnubrögð eru Alþingi til vansa og sérstaklega skjóta þau skökku við hjá ríkisstjórn sem tók við stjórnartaumunum með þeim orðum að gagnsæi og opin stjórnsýsla yrðu einkennismerki hennar. Það hefur reynst vera blekking eins og svo margt annað hjá þessari ríkisstjórn. Vil ég þar á meðal nefna ýmis atriði sem snúa að heilbrigðismálum hér á landi og ég get ekki komist hjá því, því það hefur vakið furðu mína hvað hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lítið látið sjá sig í sölum Alþingis, það liggur við að maður sakni hans — þótt ég geti varla tekið þau orð mér í munn. Hann hefur m.a. sagt að fæðingar á Suðurlandi og Suðurnesjum muni halda áfram. Síðan heyrir maður það ekki síst frá Suðurnesjum að það sé alrangt. Fæðingar munu leggjast af nú í byrjun sumars eins og hefur verið undanfarin sumur og óvíst um framhaldið þannig að það er blekking hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að halda því fram að fæðingar haldi áfram á Suðurlandi. og Suðurnesjum.

Það sama má segja um sameiningu sjúkrastofnana. Þótt þetta sé svolítið fyrir utan efnið get ég ekki látið hjá líða að nefna að þrátt fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi sagt að hann muni slá af allar sameiningar sjúkrastofnana og hrósað sér af því, hefur verið tilkynnt um að sameining verði á Vesturlandi 1. júlí, þannig að ríkisstjórnin hefur fengið falleinkunn á fyrstu skrefunum og orðið uppvís að blekkingu.

En eitt eru vinnubrögðin og annað eru áhrif þeirra á stjórnsýslu landsins til framtíðar. Þegar fræðimenn eins og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, lætur alvarleg viðvörunarorð falla í umsögn sinni hljótum við að spyrja hvað minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins gengur til. Með leyfi forseta, segir prófessorinn í umsögn sinni:

„Það er skoðun mín, að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna: Þess má þá vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Ég get ekki annað sagt en að þau vinnubrögð, sem ég hef lýst og við sjálfstæðismenn höfum bent á og fræðimenn og umsagnaraðilar um málið hafa jafnframt dregið sérstaklega fram, lýsi ákveðnu virðingarleysi fyrir stjórnarskránni. Við hljótum að vara við hættu á að eyðileggja stjórnarskrána sem hefur dugað okkur vel, eins og ég mun fara í á eftir.

Líka má segja, virðulegi forseti, að þessi áhersla á breytingar á stjórnarskránni sé sérkennileg, ekki síst í ljósi þess að ekki er með nokkrum hætti hægt að kenna stjórnskipun landsins um bankahrunið í haust. Við hljótum að spyrja okkur hvort ríkisstjórnin sé vísvitandi að afvegaleiða þjóðina og beina athyglinni að öðru en hinu alvarlega ástandi sem hér ríkir. Sannleikurinn er sá að engar grundvallarreglur sem rekja má til stjórnarskrárinnar brugðust í bankahruninu í haust. Þau atriði sem ríkisstjórnin leggur þannig áherslu á varðandi stjórnarskrárbreytingu og varðar m.a. auðlindaákvæðið hefur ekkert með bankahrunið að gera né efnahagsástandið í landinu. Öðru nær. Varðandi auðlindaákvæðið þá benda margir umsagnaraðilar á að sú útfærsla sem lögð er til varðandi nýtt ákvæði stjórnarskrár um auðlindir landsins geti leitt til réttaróvissu, til ágreinings og valdið deilu og glundroða í greininni, sérstaklega í sjávarútveginum og ég spyr hvort þörf sé á að bæta í varðandi óvissuna um framtíð landsins.

Virðulegi forseti. Vissulega má hafa skilning á því að við þær aðstæður sem ríkja í landinu, reiði gagnvart stjórnvöldum og tortryggni gagnvart stjórnmálaflokkum, komi fram krafa um endurskoðun á grunngildum og grunnstoðum samfélags okkar, þar með stjórnarskránni. Við erum hins vegar engu bættari með því að kasta til höndunum í þeirri vinnu með því að vinna hana á skömmum tíma. Mun skynsamlegra er að taka umræðuna meðal stjórnmálamanna, stjórnspekinga og annarra fræðimanna með opnum hætti með þátttöku almennings í landinu. Það verður hins vegar að gerast með yfirvegun, ekki með flýtimeðferð í þinginu í andstöðu við stóran hluta þingmanna og nánast alla umsagnaraðila í málinu. Það er ekki líðandi að ganga fram hjá aðvörunarorðum okkar helstu fræðimanna og hagsmunaaðila hér á landi. Það er heldur ekki boðlegt að þeir fái einungis örfáa daga til að taka afstöðu til málsins eins og raunin hefur orðið og ég endurtek enn einu sinni: Það var ekki stjórnarskráin sem brást í bankahruninu. Það voru aðrir þættir.

Fyrr í vikunni kom skýrsla finnsks sérfræðings sem hefur rannsakað bankahrunið og orsakir þess. Nefnir hann stjórnarskrána til sögunnar? Nei, hann gerir það ekki. Hvað brást að hans mati? Í frétt Morgunblaðsins í gær segir m.a., með leyfi forseta:

„Skýrsla Kaarlos Jännäris, finnska sérfræðingsins sem fyrri ríkisstjórn fékk til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi, er nánast samfelldur áfellisdómur yfir íslenska fjármálakerfinu. Í skýrslunni fá allir sinn skammt; fyrst og fremst bankarnir sjálfir en líka eftirlitsstofnanir og stjórnvöld. Þótt ýmsar jákvæðar hliðar séu dregnar fram, er tilfinningin sem eftir situr að loknum lestrinum sú að Ísland sé land, sem aldrei gat ráðið við nútímalegt, alþjóðlegt fjármálakerfi.“

Síðar í greininni segir m.a. eftirfarandi:

„Skýrsla Jännäris staðfestir margt af því, sem gagnrýnt hefur verið í íslenska fjármálakerfinu á síðustu mánuðum. Gagnrýnin frá þessum virta sérfræðingi er svo hörð, að ekki verður hjá því komist að taka mark á henni. Hann hittir því miður naglann á höfuðið, þegar hann bendir á að stjórnmálaflokkar,“ — og ég vil benda á að enginn er undanskilinn — „fjölmiðlar og öll þjóðin, allt upp í æðstu þrep valdastigans, hafi verið í klappliði bankanna og fyllst þjóðarstolti yfir velgengni þeirra Þess vegna hefði það sennilega ekki tekist, þótt Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn eða aðrir hefðu reynt að koma vitinu fyrir menn í tíma.“

Ekki er nefnt einu orði að grunnreglukerfi okkar hafi brugðist. Samt sem áður leggur ríkisstjórnin svo ríka áherslu á breytingar á stjórnarskránni sem raun ber vitni. Í greinargerð með frumvarpi til breyttra stjórnarskipunarlaga er gerð tilraun til að tengja endurskoðun á stjórnarskránni við bankahrunið þar sem það hafi kallað á endurskoðun á ýmsum grundvallarreglum í íslensku stjórnskipulagi. Í ræðu minni við 1. umr. málsins vitnaði ég í grein sem Skúli Magnússon lögfræðingur ritaði í Fréttablaðið miðvikudaginn 4. mars sl. en þar ræðir hann um hugmyndir um stjórnlagaþing og stjórnarskrána. Þar spyr hann hvort stjórnskipan Íslands hafi brugðist samfélaginu í grundvallaratriðum og hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hefði kvótakerfi í fiskveiðum, stóriðjuframkvæmdir, einkavæðing fjármálafyrirtækja, eftirlit með fjármálafyrirtækjum, breytingar á skattalögum, stjórn peningamála og ríkissjóðs — svo einhver dæmi séu tekin um ætlaða sökudólga — orðið með öðrum hætti ef stjórnskipun Íslands hefði verið „lýðræðislegri?“ geymt ákvæði um „sameign þjóðarinnar á auðlindum“, umhverfisvernd, o.s.frv.? Ef miðað er við stjórnlög, eins og þau tíðkast í hinum vestræna heimi, verður ekki séð að önnur og nútímalegri stjórnskipan hefði nokkru breytt um þessi atriði. Það stenst ekki heldur samanburð við önnur vestræn samfélög, sem kenna sig við lýðræði og mannréttindi, að halda því fram að stórkostleg slagsíða hafi verið og sé enn á íslenskri stjórnskipun hvað þessi atriði varðar.“

Áfram heldur hann:

„Eitt af því sem nú er teflt fram sem viðbrögðum við efnahagslegu áfalli landsins er flýtimeðferð til ákveðinna breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins en að því loknu einhvers konar allsherjarendurskoðun stjórnskipunarinnar á vettvangi stjórnlagaþings.“

Svo segir hann áfram:

„Þótt hugmyndin um stjórnlagaþing kunni að hljóma aðlaðandi, sefa reiði almennings með því að svara kalli um róttækar og umsvifalausar breytingar, eru hér miklir hagsmunir lagðir að veði. Við Íslendingar eigum nefnilega stjórnskipun sem í öllum meginatriðum er skýr, jafnvel þótt texti stjórnarskrárinnar sjálfrar kunni í sumum tilvikum að vera gamall og lítt aðgengilegur. Þessi eign er ekki eins sjálfsögð og margir kunna að ætla. Einmitt við núverandi aðstæður ætti mönnum þó að vera ljóst gildi þess að eiga stjórnskipun sem er skýr um skipan valdsins, valdmörk, ákvarðanatöku, o.s.frv., þannig að unnt sé að veita samfélaginu ábyrga og skynsama stjórn með langtímahagsmuni að leiðarljósi.“

Í sama streng tekur og má segja að það sé dálítið skemmtilegt sjónarhorn sem kemur fram hjá hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur, sem situr nú á hinu háa Alþingi sem varaþingmaður fyrir hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í veikindaleyfi hennar, en í nefndaráliti minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál kemur fram að hún setur breytingar á stjórnarskránni í samhengi við skyndilausnir. Hún sagði m.a. í útvarpsviðtali 29. mars eftirfarandi:

„Alveg eins og útrásaræðið var æði og peningaæðið var æði, þá er kannski komið nýtt æði.“ — Og þetta „nýja æði“ felist í því að boða í skyndi til stjórnlagaþings í stað þess að leggja fé í rannsóknir á stjórnarskránni.

Ég hef reyndar saknað hv. þingmanns í umræðunni um þetta mál og vænti þess að hún muni koma hér og lýsa skoðunum sínum í þessu máli þótt síðar verði. Ég er alveg viss um að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru tilbúnir til þess að skjóta henni inn á milli sinna raða til að koma sjónarmiðum hennar á framfæri. Reyndar spurði ég hana í gær hvort hún ætlaði ekki að taka þátt í þessari umræðu og ég gat ekki skilið það öðruvísi en að hún mundi gera það. Ég hlakka til að heyra sjónarmið hennar og hennar innlegg í þetta mál.

Ég ræddi áðan um grein eftir Skúla Magnússon sem birtist í Fréttablaðinu 4. mars sl. en hann segir í lok greinar sinnar, með leyfi forseta:

„Það er engin góð ástæða til að rífa stjórnskipun Íslands upp með rótum við núverandi aðstæður þar sem stjórnvöld þurfa að setja sér skýr markmið til lengri og skemmri tíma — sum eflaust sársaukafull og misvinsæl — og hafa styrk og þol til þess að vinna að þeim. Við munum ekki leysa aðsteðjandi vandamál með breytingum á stjórnskipun Íslands. Saga stjórnarskráa bendir raunar til þess að endingartími og tilætluð samfélagsleg áhrif þeirra aukist í öfugu hlutfalli við lengd þeirra og lagatæknilega fágun.“

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin er á rangri braut með þessum áætlunum sínum og ég legg enn og aftur ríka áherslu á að ríkisstjórnin taki upp umræðu um atvinnumál, um stöðu atvinnuveganna í landinu og stöðu heimilanna.

Ég vil einnig benda á að Ragnhildur Helgadóttir prófessor fjallar um sérstöðu stjórnarskrárinnar í pólitískri umræðu í umsögn sinni, dags. 17. mars 2009, til sérnefndar um stjórnarskrármál en þar er hún að velta fyrir sér helgi stjórnarskrárinnar og hvaða breytingar rétt sé að gera gegn vilja minni hluta og í því ljósi að yfirleitt hafi þær breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni frá því að hún tók gildi verið gerðar í sátt á milli flokkanna og ekki verið pólitískt þrætuefni og sameiginleg niðurstaða náðst. Hún veltir sem sagt fyrir sér hvaða breytingar rétt sé að gera gegn vilja minni hluta og segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrár eru ólíkar öðrum lögum að setningarhætti og vegna þess að þær eiga að leggja stórar línur og vera hafnar yfir pólitískar deilur á hverjum tíma. Vegna þessa eðlis stjórnarskráa breytast þær oft hægt, eru gefnar gamlar í ríkjum með gamla lýðræðið hefð og breytingar á þeim eru tiltölulega sjaldgæfar. Á grundvelli alls þessa er það skoðun mín að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá. Eins og menn vita hafa einungis tvisvar, frá fullveldi 1918, verið gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við heilan stjórnmálaflokk og í bæði skiptin snerust breytingarnar um kjördæmaskipan og kosningar og vörðuðu beint hagsmuni viðkomandi flokks. Síðasta dæmi um þetta var 1959. Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess er þá að vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á að íslenska stjórnarskráin er að verulegu leyti byggð á þeirri dönsku og vek athygli á að danska stjórnarskráin hefur dugað Dönum býsna vel og hefur ekki verið breytt frá árinu 1953, þ.e. níu árum eftir að ákveðnar voru þær breytingar á íslensku stjórnarskránni sem leiddu af því að Ísland varð lýðveldi.

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn höfum þrátt fyrir andstöðu okkar við málsmeðferðina rétt fram sáttarhönd í málinu. Í fréttatilkynningu frá forustumönnum Sjálfstæðisflokksins í gær segir m.a. að við viljum taka þátt í að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og höfum lagt fram tillögu í þeim efnum. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag telja sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndina um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar án þess að rjúfa þing.

Í umræðunni í gærkvöldi mátti heyra bæði á hv. þingmönnum Valgerði Sverrisdóttur, formanni sérnefndar um stjórnarskrármálið, og Lúðvíki Bergvinssyni að þau teldu það þess virði að gera tilraun til að ná sáttum í þessu máli. Ég tel mikilvægt að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur með sáttarboði sínu teygt sig býsna langt til að koma á sáttum og koma í veg fyrir það slys sem annars er yfirvofandi sem getur haft alvarlegar stjórnmálalegar afleiðingar til lengri og skemmri tíma. Hlutverk stjórnmálaflokka er að skapa sátt um grunngerð samfélagsins og bera þá virðingu fyrir þeirri hefð sem hefur skapast við stjórnarskrána að breytingar á henni séu unnar í samvinnu flokka og í sátt við flokkana og samfélagið í heild.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það yrðu óskemmtileg eftirmæli fyrir annars ágætan þingmannsferil hv. þingmanna Valgerðar Sverrisdóttur og Lúðvíks Bergvinssonar sem eiga sæti í stjórnarskrárnefndinni og hætta þingmennsku við kosningarnar eftir þrjár vikur, að þau hefðu staðið fyrir því að þvinga í gegn breytingar á stjórnarskrá Íslands í mikilli andstöðu við stærsta stjórnmálaflokkinn á hinu háa Alþingi og í andstöðu við alla helstu umsagnaraðila málsins á Alþingi. Það var í fyrsta sinn í 50 ár sem stjórnarskrárfrumvarp er afgreitt úr nefnd í fullkomnum ágreiningi. Það er ekki skemmtilegur endir á farsælum ferli þessara ágætu þingmanna.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál segir, með leyfi forseta:

„Fellur þetta sjónarmið að þeirri almennu skoðun þeirra sem ræða um stjórnarskrármál á fræðilegum grunni að það beri að standa þannig að öllum málum varðandi stjórnarskrána, að ekki sé verið að skapa fleiri lögfræðileg vandamál með breytingum eða óljósum skýringum á efni einstakra ákvæða. Hvert orð þurfi í raun að vega og meta og skýra samhengi þeirra með skýrum rökum á fræðilegum grunni.“

Nú hafa vissulega ýmsar hugmyndir komið fram um hvar eigi að bera niður í endurskoðun á stjórnarskránni og þar hefur m.a. komið til umræðu vald og valdsvið forseta sem hefur ítrekað komið upp á síðustu missirum. Einnig um þjóðaratkvæðagreiðslur, um aðskilnað ríkis og kirkju, auðlindaákvæði og svo um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Því eru mörg verkefni og margir þættir í stjórnarskránni sem þarf að skoða en við getum ekki leyft okkur að gera það í flýtimeðferð.

Mjög mikilvægt er að undirbúningur að öllum breytingum í stjórnarskrá sé vandaður og í greinargerð með frumvarpinu þar sem gerð er grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið á stjórnarskrám annarra ríkja er lögð rík áhersla á vandaðan undirbúning. Í Finnlandi var t.d. gerð ný stjórnarskrá árið 1999 sem gekk í gildi í mars 2000 og þá höfðu breytingarnar verið í undirbúningi frá árinu 1995.

Samkvæmt norsku stjórnarskránni ber að leggja tillögur um stjórnarskrárbreytingar fram á þingi í síðasta lagi á þriðja ári eftir kosningar, og mig minnir að kjörtímabilið í Noregi sé fimm ár, og það má ekki samþykkja þær fyrr en að loknum næstu kosningum þar á eftir. Það þýðir að allar breytingar á norsku stjórnarskránni, stórar sem smáar, þurfa ákveðinn tíma til að undirbúningurinn teljist viðunandi.

Á Ítalíu þurfa að fara fram tvær umræður í hvorri deild þingsins og þar eiga minnst þrír mánuðir að líða á milli umræðna. Í Sviss var gerð heildarendurskoðun á svissnesku stjórnarskránni og tók nýja stjórnarskráin gildi í janúar árið 2000. Þá höfðu breytingarnar verið í undirbúningi rúma tvo áratugi.

Það er alveg ljóst að færum við að breyta stjórnarskrá okkar í flýtimeðferð með hraði værum við engan veginn að vanda til verksins og ég tel það mikinn ábyrgðarhluta að ætla að fara fram með þeim hætti og því er ég alfarið mótfallin. Ég bendi aftur á að það eru einungis þrjár vikur síðan sérnefnd um stjórnarskrármálið tók til starfa.

Virðulegi forseti. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt að gera tilteknar breytingar á stjórnarskránni og leggja um leið til að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing sem hefði það hlutverk að gera breytingar á stjórnarskránni. Þessi tilhögun er afar sérkennileg og hún hefur verið gagnrýnd verulega. Það hlýtur að stinga í augu að á sama tíma og hugmyndir eru uppi um að setja á laggirnar stjórnlagaþing sem á að fá það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána sé Alþingi að vinna að tillögum um breytingar á þeirri sömu stjórnarskrá. Við hljótum að spyrja hvort með því sé verið að takmarka umboð stjórnlagaþings, hvort endurskoða eigi alla þætti stjórnarskrárinnar nema þá sem núverandi þing samþykkir. Það hljóta líka að vakna spurningar hvort með því að setja því þennan ramma sé stjórnlagaþingi ekki treyst fyrir verkefninu.

Við hljótum líka að velta því fyrir okkur, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom ítrekað upp með í gær og fékk lítil svör við, hvort það sé mögulegt að starfandi stjórnlagaþing og Alþingi sjálft vinni að breytingum á stjórnarskránni á sama tíma og jafnvel þess vegna í sitt hvora áttina. Þá hljótum við að spyrja hvort þingið hefði lokaorðið í þeim efnum, því að það er í rauninni ekkert sem hamlar því að Alþingi vinni að breytingum á stjórnarskrá á sama tíma og hugsanlegt stjórnlagaþing, enda er það hlutverk Alþingis að setja lög og þar á meðal að gera breytingar á stjórnarskránni.

Það sem er þó sýnu alvarlegast er að með stjórnlagaþingi er verið að veikja Alþingi eins og við sjálfstæðismenn höfum bent á. Löggjafarhlutverkið er mikilvægasta hlutverk Alþingis og stjórnarskráin, sem grundvallarplagg í stjórnskipun okkar, er þar ekki undanskilin. Með því að setja á stjórnlagaþing sem á að endurskoða stjórnarskrá landsins er verið að grafa undan valdi og virðingu Alþingis og veikja stöðu þess. En ein helsta gagnrýnin á undanförnum mánuðum og missirum er meint veik staða þingsins. Þessar hugmyndir eru ekki til þess fallnar að styrkja starf þingsins né virðingu þess heldur þvert á móti.

Sjálfstæðisflokkurinn leggst í sjálfu sér ekki á móti hugmyndum um stjórnlagaþing og er til umræðu um að setja slíkt þing á laggirnar sem yrði ráðgefandi um breytingar á stjórnarskránni sem síðan væri á valdi Alþingis sjálfs að fjalla um og staðfesta.

Grunur hefur vaknað að þegar upp er staðið hafi ákvæði um stjórnlagaþing verið dúsa sem stungin hafi verið upp í Framsókn til að fá hlutleysi þeirra og eftir atvikum stuðning þeirra við þá ríkisstjórn sem nú hefur starfað í tvo mánuði. Á þeim þrem vikum sem málið hefur verið í höndum sérnefndarinnar hafa hugmyndir um stjórnlagaþing tekið miklum breytingum. Á sama tíma hefur jafnframt komið í ljós að þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa í raun og veru ekki mikinn áhuga á hugmyndum um stjórnlagaþing.

Hugmyndir um þingið hafa verið útþynntar og útþynntar verulega. Fyrsta hugmyndin var þar yrðu 63 þingmenn en fjöldinn er kominn niður í 41. Fyrstu hugmyndir voru að stjórnlagaþing hefði eitt og hálft til tvö ár til að starfa en sá tími hefur nú verið styttur verulega, í nokkra mánuði. Í stað þess að sérstaklega væri kosið til stjórnlagaþings, eins og upphaflegu hugmyndirnar voru, eigi að spyrða valið við sveitarstjórnarkosningar á næsta ári og ekki hefur heyrst um að sveitarstjórnarmenn hafi verið spurðir álits á því og það er álitamál hvort það sé heppilegt með hliðsjón af markmiðum sveitarstjórnarkosninga sjálfra.

Í stað þess að þeir sem kosnir eru til stjórnlagaþings vinni við það í fullu starfi er nú verið að tala um hlutastarf. Reifaðar hafa verið hugmyndir um að í stað þess að stjórnlagaþing komi að hreinu borði og hafi fullt umboð til að taka á öllum þáttum muni það jafnvel fjalla um tillögur fræðimanna um nýja stjórnarskrá. Síðast en ekki síst hefur kostnaður verið færður úr 2,5 milljörðum kr. í 400–500 millj. kr. sem eru að vísu ánægjulegar fréttir en umfangið er minnkað sem því nemur. Þegar upp er staðið er kostnaður við þingið, umfangið og hlutverkið, um 20% af því sem upphaflega var ætlað. Það eina sem eftir er er að slá hugmyndina af og spurningin er hvenær ríkisstjórnin tekur af skarið og kastar Framsókn út á kaldan klaka eins og ónýtri tusku. Það er búið að nota hana í tvo mánuði góðum árangri. (Gripið fram í.)

Stjórnarflokkarnir hafa styrkt sig en Framsókn hefur fengið minna en ekkert út úr stuðningi sínum við ríkisstjórnina. Fylgi flokksins hefur farið úr 17% stuttu eftir kjör nýs formanns og er nú á bilinu 7–10% samkvæmt skoðanakönnunum. Stuðningur flokksins við minnihlutastjórnina hlýtur því að verða metið sem algert glappaskot af framsóknarmönnum sjálfum.

Virðulegi forseti. Í lokin vildi ég draga fram hvaða afstöðu núverandi ríkisstjórnarflokkar eða hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tóku þegar breytingar á stjórnarskránni voru ræddar árið 2007. Þar kom fram eindregin skoðun þeirra að ætti ekki að breyta stjórnarskránni með hraði heldur þyrfti að ígrunda vel allar slíkar breytingar. Þannig sagði hv. þáverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga …“ — og enn fremur: „Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Áður hafa verið dregin fram í umræðunni orð hv. þáverandi þingmanns og núverandi ráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, en hann sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Það er vissulega ástæða til að draga þessi orð fram. Ég tel að leggja verði ríka áherslu á umgengni við stjórnarskrána og sýna virðingu því sem þar stendur og ég legg ríka áherslu á að ekki verði hrapað að neinu í þeim efnum.