136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:45]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að hér fari fram merkar umræður og segja má að það séu tímamót í því hvernig um þetta mál er fjallað á Alþingi þessa dagana. 50 ár eru síðan stjórnarskrárfrumvarp var síðast rætt í nefnd og á þingi án þess að um það væri samstaða og var það þá í andstöðu við Framsóknarflokkinn vegna kjördæmabreytinga þar sem hagsmunir Framsóknarflokksins voru gríðarlega miklir í þá tíð.

En nú er ekki um kjördæmahagsmuni að ræða, ekki er verið að breyta kjördæmaskipaninni, heldur eru önnur mál uppi. Er óhætt að segja að Framsóknarflokkurinn eigi þar nokkuð stóran hluta að máli, bæði vegna frumvarpsflutnings framsóknarmanna fyrr á þinginu og eins vegna þess hlutverks sem það frumvarp, sem komið er inn í frumvarp flokksformannanna, leikur í þessu stjórnarsamstarfi. Jafnframt vegna þess að formennskan í sérnefndinni var falin hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, fyrrv. formanni Framsóknarflokksins.

Það eru í rauninni fjögur meginatriði sem um er að tefla í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi er í 1. gr. frumvarpsins fjallað um umhverfismál og eignarrétt á náttúruauðlindum. Að hluta til eru það mál sem rædd hafa verið talsvert á undanförnum árum og í öðrum þeim tilraunum sem gerðar hafa verið til að breyta stjórnarskránni en hins vegar eru hér ný efnisatriði sem lítt hefur verið fjallað um, reyndar ekki bara hér á landi. Það hefur lítið verið fjallað um ákvæði sem þessi annars staðar líka, eins og ég mun koma að síðar í máli mínu.

Í öðru lagi er í 3. gr. frumvarpsins fjallað um hvernig fara eigi með þjóðaratkvæðagreiðslur um tiltekin lög eða málefni sem varða almannahag ef 15% kjósenda gera kröfu um að slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram.

Í þriðja lagi er það 4. gr. sem fjallar um títtnefnt stjórnlagaþing og ég nefndi aðeins áðan. Það hefur spilað stórt hlutverk í stjórnmálum vetrarins og mun ég ræða lítið eitt um það síðar í ræðu minni. Síðan er það fjórða atriðið sem er breytingin á 29. gr. stjórnarskrárinnar um hvernig breyta megi stjórnarskránni. Það eru auðvitað atriði sem nokkuð hefur verið fjallað um áður. Í stjórnarskrárnefnd sem starfaði á síðasta kjörtímabili voru komnar fram tillögur um hvernig með þetta mætti fara og hvernig þessu mætti breyta til að hægt væri að breyta stjórnarskránni á auðveldari hátt en þó að það væri gert þannig að þess væri gætt að vinnubrögðin væru í lagi, að ekki væru keyrðar í gegn breytingar á skömmum tíma við sérstakar aðstæður eins og reyndar verið er að gera að þessu sinni. En ég mun fjalla um það svolítið síðar.

Í ljósi þess að stórt atriði í þessu frumvarpi er hvernig standa eigi að því að breyta stjórnarskránni er ekki úr vegi að fjalla aðeins um hvernig staðið er að þeim breytingum sem við fjöllum um hér. Um þær hefur verið afskaplega lítið samráð, lítill undirbúningur þó að einhver atriðin hafi verið til umfjöllunar áður. Þetta hefur verið unnið á stuttum tíma og forðast hefur verið eins og mögulegt hefur verið að gera það þannig að sátt gæti verið á milli allra flokka eins og verið hefur reglan fram til þessa. Stjórnarskrárbreytingarnar hafa núna orðið hluti af pólitísku samningamakki, sem ekki hefur gerst áður, þar sem ákveðin atriði hafa verið forsenda fyrir því að minnihlutaríkisstjórnin fengi stuðning frá Framsóknarflokknum við tilveru sína.

En það er ekki úr vegi að fjalla aðeins um hvernig staðið er að því að breyta stjórnarskrá og hvernig við höfum staðið að því áður. Áður en ég fjalla um það vil ég aðeins fara yfir tilurð stjórnarskrár okkar og sögu hennar. Hún er í grunninn runnin af rótum dönsku stjórnarskrárinnar sem var afrakstur dansks stjórnlagaþings sem haldið var á þar síðustu öld. Í dönsku stjórnarskránni voru grundvallarlög fyrir danska ríkið sem samþykkt voru 5. júní 1849. Þeirri stjórnarskrá var síðan breytt en stjórnarskrá okkar sem byggist á þeirri breyttu stjórnarskrá sem var í grunninn frá 1849, fengum við 5. janúar 1874, eins og menn þekkja. Það var konungurinn sem nánast rétti okkur stjórnarskrána, eins og við sjáum á styttunni fyrir framan Stjórnarráðið, því að ekki hafði hún verið samþykkt á Alþingi. En auðvitað höfðu ýmis stjórnarskrárfrumvörp verið samþykkt þar og gerð krafa um að Íslandi yrði sett stjórnarskrá. En þessi stjórnarskrá var, eins og ég sagði áðan, í meginatriðum samhljóða dönsku stjórnarskrárlögunum eða „grundloven“ sem þá voru í gildi og höfðu gilt frá 1866 með ýmsum öðrum breytingum.

Við höfum síðan gert breytingar á þessari stjórnarskrá nokkrum sinnum, bæði á lýðveldistímanum og á meðan við vorum enn hluti af ríki danska konungsins. Var tekið til við að gera breytingar strax árið 1903 vegna heimastjórnarinnar sem þá var komin og inn komu ákvæði um ráðherra. Árið 1915 var ýmsum ákvæðum breytt þegar ráðherrum var fjölgað og konur fengu kosningarrétt og raunar var kosningarréttur karla og kvenna gerður almennur. Gerðar voru breytingar 1919 sem leiddu af fullveldi Íslands og síðan var samþykkt stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 1920. Þar voru aðrir hlutir sem einnig leiddu af fullveldinu og vörðuðu stöðu hinna ýmsu mála, svo sem stöðu Íslands gagnvart konunginum og fleira.

Síðan voru gerðar breytingar árin 1927 og 1934 en þær lutu að mestu leyti að kosningakerfinu. Þar er sá grunnur sem breytt hefur verið í stjórnarskrá. Árið 1942 var kosningafyrirkomulaginu enn breytt með stjórnarskránni og síðan var gerð breyting árið 1943 sem undirbjó gildistöku nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins 17. júní 1944. Þá má segja að á tímabilinu fram að lýðveldistímabilinu hafi stjórnarskránni verið breytt átta sinnum. Á lýðveldistímanum hefur stjórnarskránni líka verið breytt nokkrum sinnum, árið 1959, en það var í síðasta skiptið sem það var gert í ágreiningi þar til nú, ef fer sem horfir, og síðan 1984, 1991 og 1995. Sumar af þeim breytingum sem þá voru gerðar áttu rót sína að rekja til frumvarps sem lagt var fram 1983 af Gunnari Thoroddsen, þáverandi forsætisráðherra. Síðan hefur verið gerð ein breyting, árið 1999, og þá á ég aðeins eftir eina ótalda sem var breytingin á kosningaraldrinum vegna kosninganna 1968 sem gerð var 1967. Segja má að stjórnarskránni hafi verið breytt sjö sinnum á lýðveldistímabilinu.

Það er nokkuð merkilegt þegar maður fer yfir þetta að á þeim tveimur tímabilum í sögu okkar sem við höfum verið með stjórnarskrá höfum við breytt henni 15 sinnum, og raunar sjö sinnum á lýðveldistímabilinu, en danska stjórnarskráin sem nú er í gildi og samþykkt var 1953 var síðasta stjórnarskrárbreyting sem gerð var í Danmörku.

Eins og ég sagði áðan hefur oftast náðst mjög víðtæk samstaða um stjórnarskrárbreytingar. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé þannig til þess að um þetta grundvallarskjal stjórnskipunarinnar ríki góð sátt og hún sé ekki gerð að pólitísku bitbeini eins og manni sýnist að stefni svolítið í nú um stundir.

Ef við víkjum aðeins að því hvernig staðið er að stjórnarskrárbreytingum annars staðar, sérstaklega þegar við horfum til þess hvernig við höfum staðið að þessu og hvernig lagt er til að staðið verði að þessu í framtíðinni, í ljósi þess að gagnrýnt hefur verið hversu slöpp við á hv. Alþingi höfum verið — nú gengur hæstv. forsætisráðherra úr salnum og ofbýður sennilega tungutakið úr ræðustólnum, að við skulum ekki vera búin að breyta stjórnarskránni nema sjö sinnum á lýðveldistímabilinu. Við skjótum frændum okkar í Danmörku laglega ref fyrir rass þar. Í sumum stjórnarskrám eru ákveðnir kaflar undanþegnir endurskoðun, (Gripið fram í.) þeim má einfaldlega ekki breyta. Það á við um norsku stjórnarskrána að því er varðar anda og meginreglur hennar án þess að það sé nákvæmlega afmarkað hvaða ákvæði falli undir hverjar séu réttarfarslegar afleiðingar ákvæðis. Þó er það þannig að anda og meginreglu stjórnarskrárinnar má ekki breyta.

Í þýsku stjórnarskránni er þetta nokkuð skýrara en þar er kveðið á um að ekki megi breyta skiptingu sambandsríkisins í sambandsþátttöku þeirra í löggjafarferlinu né ákvæðum 1.–21. gr. stjórnarskrárinnar um grundvallarréttindi. Í ítölsku og frönsku stjórnarskránni eru líka ákvæði um að ekki megi afnema lýðveldið. Þá eru í bæði frönsku og spænsku stjórnarskránni ákvæði, sem ég held að séu mjög merkileg ákvæði og íhugunarverð fyrir okkur sem erum að vinna að stjórnarskrárbreytingum undir tilteknum kringumstæðum, um að ekki megi breyta stjórnarskránni á ófriðartímum. Væntanlega er það vegna þess að þá er meiri óstöðugleiki og líkur til þess að síður verði vandað til vinnubragða, að breytingar geti verið á einhverjum annarlegum forsendum eða þær keyrðar fram af afli sem hægt er að beita á ófriðartímum en ekki öðrum tímum. Það er þá væntanlega gert til að vernda anda og meginreglur stjórnarskrárinnar eins og ákvæðinu í norsku lögunum er ætlað að gera.

Þó að ég ætli ekki beinlínis að líkja því sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum við ófriðartíma held ég að engum blandist hugur um að þeir atburðir sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum hafi haft í för með sér meiri breytingar og leitt til meiri óstöðugleika og meiri erfiðleika en við höfum upplifað, alla vega í mjög langan tíma þar á undan. Þess vegna má segja að einmitt við þessar kringumstæður uppfyllum við sem samfélag og stjórnarskrárgjafi tæplega að geta unnið við bestu hugsanlegu skilyrði við að breyta stjórnarskránni. Þetta eitt og sér ætti að leiða til þess að við hugsuðum okkur tvisvar um áður en við gerðum breytingar.

Það er líka ástæða til að nefna í þessu samhengi að í flestum Evrópuríkjum er frumkvæðisrétturinn til að hrinda af stað stjórnarskrárbreytingum sá sami og gildir um almenn lagafrumvörp en þó eru möguleikar til þess að lágmarksfjöldi þingmanna eða hluti kjósenda geti hrint af stað slíkum breytingum. Þó er það ekki víða. Í norrænum stjórnarskrám eins og t.d. í þeirri dönsku er gert ráð fyrir því að breytingar á henni gildi ekki nema þær séu samþykktar af tveimur þingum með kosningum á milli auk þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér hjá okkur er það þannig að tvö þing með kosningum á milli þurfa að samþykkja. Þar er áskilið að meiri hluti þátttakenda í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu og aldrei færri en 40% kosningabærra manna greiði atkvæði með breytingunni þannig að það eru býsna ströng skilyrði. Síðast var stjórnarskránni breytt þar árið 1953. Það getur verið ástæðan fyrir því að sumir sem komið hafa fyrir sérnefndina hafa haldið því fram að ef breytingar yrðu gerðar þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla yrði gerð að skilyrði, yrði það frekar til að letja til breytinga á stjórnarskránni en hitt.

Í Finnlandi var stjórnarskránni breytt nýverið. Breytingin var samþykkt árið 1999 og gekk í gildi árið 2000. Þær breytingar höfðu verið í undirbúningi frá því 1995 þegar dómsmálaráðherra setti á fót vinnuhóp sem hafði það verkefni að gera stjórnskipun landsins nútímalegri. Þar þarf að samþykkja frumvarpið tvisvar sinnum, bæði fyrir og eftir kosningar, en þó þannig að tvær umræður fara fram fyrir kosningar en sú þriðja eftir kosningar. Þá þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna að samþykkja frumvarpið óbreytt við þá umræðu til að breytingarnar taki gildi. Er þó hægt að breyta ákveðnum atriðum ef fimm sjöttu hlutar þingmanna sem taka þátt í atkvæðagreiðslu, samþykkja án þess að bíða þingkosninga. Það er því hægt að gera þær breytingar með hraðari hætti — og reyndar í þriðja skiptið — en þá með mjög auknum meiri hluta, eða með samþykki fimm sjöttu hluta þingmanna.

Samkvæmt sænsku stjórnlögunum taka breytingar á þeim ekki gildi nema frumvarp hafi verið samþykkt óbreytt á tveimur þingum og með þingkosningum á milli. Þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið skal fara fram samhliða þingkosningum ef tillaga um slíkt kemur fram og hún fær samþykki a.m.k. þriðjungs þingmanna.

Samkvæmt norsku stjórnarskránni ber að leggja tillögur að stjórnarskrárbreytingum fram á þingi í síðasta lagi á þriðja ári eftir kosningar og ekki má samþykkja það fyrr en að loknum næstu kosningum þar á eftir. Við afgreiðslu laganna verða a.m.k. tveir þriðju þingmanna að sitja þingfund og taka breytingar á stjórnarskránni ekki gildi nema frumvarpið hafi verið samþykkt með tveimur þriðju meiri hluta. Ekki má gera breytingar, eins og ég sagði áðan, á meginreglum og anda stjórnarskrárinnar. Þegar við horfum á þetta ákvæði í norsku stjórnarskránni er vert að hafa í huga líka að þar eru föst kjörtímabili og ekki hægt að rjúfa þing og boða til kosninga. Þar af leiðandi er einungis hægt að breyta stjórnarskránni einu sinni á fjögurra ára tímabili. Það er algerlega útilokað að gera breytingar öðruvísi en bara á þessu eina ári og þá á þann hátt að það þarf mikinn meiri hluta.

Stjórnarskrá Austurríkis var breytt nýlega. Þar mælir svo fyrir um að tveir þriðju hlutar þingmanna þurfi að samþykkja stjórnarskrárbreytingu og auk þess ber að leggja heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. En slíkt er þó ekki áskilið um minni breytingar sem ganga skemmra nema þriðjungur þingmanna í annarri hvorri deildinni krefjist þess. Ekki vantar varnaglana þarna gagnvart því að ýta í gegn breytingum á skömmum tíma.

Belgía, Holland og Lúxemborg eru með svipaðar reglur og við en ef yfirlýsing er studd af meiri hluta þingmanna um að til standi að breyta stjórnarskránni er þing rofið og svo er það tekið fyrir á nýju þingi. Þá þarf tvo þriðju hluta þingmanna til að samþykkja.

Í frönsku stjórnarskránni eru tvær leiðir, annars vegar að báðar þingdeildir samþykki frumvarp, það er þá borið undir þjóðaratkvæði og öðlast gildi ef einfaldur meiri hluti er fyrir því, og hins vegar að forsetinn kalli saman báðar þingdeildir. Þá þurfa þrír fimmtu hlutar greiddra atkvæða að samþykkja frumvarpið. Það er auðvitað fljótlegri leið og hefur verið notuð mun oftar en aukinn meiri hluti eins og víða annars staðar.

Í írsku stjórnarskránni er áskilið að stjórnarskrárbreytingar þurfi samþykki í báðum deildum auk þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það má fara víðar um og skoða hvernig staðið er að breytingum á stjórnarskrám. Alls staðar eru þær þannig að ekki verður farið í breytingar með hraði að illa ígrunduðu máli eða að þær séu hluti af einhverjum pólitískum hrossakaupum. Ýmislegt er gert til að koma í veg fyrir að það sem okkur finnst við vera að upplifa hérna gerist ekki. Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvað það er sem veldur því að við viljum fara þessa leið, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarskrárnefndin sem starfaði á síðasta kjörtímabili gerði ráð fyrir því í tillögu sinni að til að hægt væri að breyta stjórnarskránni án þess að það þyrfti tvennar kosningar, þyrftu breytingarnar að vera samþykktar af tveimur þriðju hluta þingmanna og fara síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess þyrfti fjórar umræður í þinginu og a.m.k. þrjár vikur ættu að líða milli umræðna þannig að nægur tími gæfist til að ígrunda málin og ekki væri verið að ýta málum í gegn með hraði. Svo virðist sem hv. sérnefnd hafi að einhverju leyti velt þessu fyrir sér, hún bætti við einni umræðu og setti inn tímatakmarkanir á milli umræðna þannig að nú eru umræðurnar orðnar fjórar og ein vika þarf að líða milli umræðna. Það er út af fyrir sig bót frá því sem var og er í upphaflega frumvarpinu. En eftir sem áður er gert ráð fyrir einföldum meiri hluta og væri hægt að keyra í gegn breytingu á einum mánuði ef því væri að skipta. Það er nákvæmlega það sem verið er að reyna að gera núna, að keyra í gegn breytingar á stjórnarskránni á einum mánuði. Það er því margt íhugunarvert í þessu sambandi og er kannski vert að líta aftur til þess sem gerist á hinum Norðurlöndunum.

Í Svíþjóð er hafinn undirbúningur að breytingum á stjórnarskránni þar sem skipuð var nefnd árið 2004. Nefndin skilaði sameiginlegri niðurstöðu í desember sl. 2008, 900 blaðsíðna skýrslu sem hefur verið lögð fyrir þingið. Það var gert eftir mikla yfirlegu og samráð fjölda ráðgjafa og sérfræðinga. Gert er ráð fyrir því að þessi skýrsla eigi eftir að fara í gegnum langt ferli í sænska þinginu og hugsanlegt er að ný stjórnarskipunarlög verði ekki afgreidd á sænska þinginu fyrr en árið 2011. Eins og ég nefndi áðan var þetta 5 ára ferli í Finnlandi og við erum að reyna að keyra í gegn breytingar á einum mánuði eða svo.

Það er hins vegar athyglisvert að ræða aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslurnar eða 3. gr. frumvarpsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur þekkjast auðvitað og eru sums staðar hluti af pólitískri og stjórnskipulegri hefð. Það getur verið mjög gagnlegt að hafa beint og milliliðalaust lýðræði og gæti verið mjög þarft. Það getur verið að við höfum ekki nýtt þennan möguleika nægjanlega vel hér á landi, kannski höfum við ekki haft hefð fyrir því enda höfum við ekki einu sinni löggjöf um hvernig við ætlum að gera það eða vildum gera það. Ef við horfum á það í samhengi við stjórnmálin frá lýðveldistímanum þegar síðasta þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram, þegar stjórnarskráin sem við þekkjum eða búum við í dag var samþykkt, er varla hægt að segja að það sé einhverjum einum um að kenna. Allir stjórnmálaflokkar sem starfað hafa í lengri tíma á lýðveldistímabilinu hafa komið að því að vera í ríkisstjórn og hefðu, ef þeir hefðu viljað, getað tekið upp þetta kerfi en enginn hefur raunverulega gert það. Við höfum ekki mörg ákvæði um þetta. Það eru ákvæði um þetta í stjórnarskránni en engin lagaákvæði og þau snúa aðallega að því ef víkja þyrfti frá forseta, þegar forseti synjar lagafrumvarpi um staðfestingu eða ef breyta á kirkjuskipaninni.

Hjá okkur er engin heimild til að frumkvæði komi frá kjósendum. Það er þó þekkt annars staðar, sérstaklega var það virkt í Grikklandi hinu forna og í einstaka ríkjum í Bandaríkjunum. Það er jafnframt þekkt í Sviss, Ítalíu, Litháen, Lettlandi og Makedóníu. Það er athyglisvert að velta því aðeins fyrir sér hvað þessi ríki eiga sameiginlegt sem hafa þennan möguleika, og hvað ekki. Þrjú þeirra eru fyrrum austantjaldslönd, tvö þeirra eru sambandsríki, þ.e. Sviss og Bandaríkin, og síðan er það Ítalía. Varla getum við sagt að Ítalía hafi orð á sér fyrir sérstakan pólitískan stöðugleika. Það má hins vegar segja um Sviss. Þar er gríðarlega mikill stöðugleiki sem hefur ríkt mjög lengi þannig að veldur hver á heldur í þessu efni eins og svo mörgum öðrum.

Ég held að það væri athyglisvert fyrir okkur að skoða þennan möguleika en gefa okkur hins vegar góðan tíma til að velta því fyrir okkur hvernig eigi að gera þetta, ekki að rasa um ráð fram í því. Það kemur fram hjá álitsgjöfunum að þeir telja að verið sé að rasa aðeins um ráð fram varðandi þá aðferð sem lagt er til að notuð verði. Menn velta því fyrir sér hvort það eigi að vera 15%, 20% eða 25% og hvað eigi að ráða niðurstöðunni. Ég held að við hefðum gott af því að vinna þetta aðeins betur. Ef til stjórnlagaþing verður stofnað ætti það kannski frekar að koma með tillögu eða niðurstöðu eftir því hvort um væri að ræða ráðgefandi stjórnlagaþing eða stjórnlagaþing sem væri ákvarðandi áður en að þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi, og fara yfir mál eins og þetta. Með því að taka upp stjórnlagaþing væri verið að taka frumkvæðið að stjórnarskrárbreytingum frá Alþingi, ef ekki að taka valdið algerlega frá Alþingi. Þá færi betur á því að slíkur aðili ákvarðaði eða legði til hvernig almenningur hefði frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu.

Um hvað ætti þjóðaratkvæðagreiðslan að vera? Það er tiltölulega einfalt mál að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög, hvort það eigi að staðfesta þau eða ekki. En það er hins vegar erfiðara að ákvarða um hvaða mikilvæg málefni eigi að bera upp í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvaða málefni mundu falla undir þá skilgreiningu sem stjórnarskráin mundi gera, sem mikilvægt málefni. Reyndar er í tillögum nefndarinnar gert ráð fyrir því að Alþingi yrði ákvarðandi um hvað væri mikilvægt málefni og þá er auðvitað spurning hvort það eigi að ákvarða áður en farið er að safna undirskriftunum eða hvort gera eigi það á eftir. Að mörgu leyti væri hentugra að ákveða það fyrir fram þannig að ekki væri búið að safna fjölda undirskrifta undir eitthvert skjal sem gerði ráð fyrir því að eitthvert tiltekið málefni væri mikilvægt. Svo segði Alþingi: Nei, kæru vinir. Þetta er ekki mikilvægt málefni. Þið eruð búin að safna undirskriftum 15–20% þjóðarinnar til einskis því að við teljum að þetta sé ekki mikilvægt málefni, og er ákveðin kaldhæðni fólgin í því. Það er að ýmsu að hyggja í þessu og betra að við gefum okkur góðan tíma í að fara yfir málið.

Stjórnlagaþingið er þess virði að fjalla ítarlega um það. Stjórnlagaþing er frekar óvenjulegt fyrirbrigði þótt það þekkist auðvitað. Eins og ég sagði áðan voru dönsku grundvallarlögin afsprengi stjórnlagaþings en það var á þar síðustu öld sem það stjórnlagaþing var haldið. Það var haldið þegar verið var að afnema einveldi í Danmörku og koma á fót þingræðisskipulagi og lýðræði sem síðan átti eftir að þróast frá því þingræði sem þar varð til. En nú um stundir er frekar óvenjulegt að kallað sé til stjórnlagaþings. Það er sögulegt fyrirbrigði frekar en nútímafyrirbrigði. Það er hins vegar ekkert sem segir að ekki sé hægt að gera það og það var gert fyrir ekki svo löngu síðan. Í Sviss er svolítil hefð fyrir stjórnlagaþingum og er gagnlegt að horfa til þeirra ef við mundum skipuleggja slíkt þing. En ég fæ ekki séð á nefndaráliti meiri hlutans að nein sérstök úttekt hafi verið gerð á því hvernig til tókst þar þótt það sé nefnt í greinargerðinni með frumvarpinu, en hugmyndin er kannski ekki slæm.

Ef við horfum aftur til ákvæðanna í frönsku og spænsku stjórnarskránni um að ekki megi breyta stjórnarskránni á ófriðartímum og þess sem ég sagði um það ástand sem hér hefur ríkt, það sem við höfum upplifað á síðustu mánuðum, held ég, án þess þó að ég sé að líkja því við stríðsástand, að stjórnlagaþing þurfi að starfa við aðstæður þar sem ríkir stöðugleiki og jafnvægi í þjóðfélaginu. Það sé ekki æskilegt að slíkt þing starfi við aðstæður þar sem upplausn, óvissa eða miklir erfiðleikar ríkja. Stjórnarskrá er skjal sem er ekki ætlað að vera skjal líðandi stundar heldur skjal sem stendur til framtíðar og er leiðarvísir um langa framtíð þótt auðvitað eigi við gerð stjórnarskrárinnar að taka mið af og læra af því sem þjóðir og einstaklingar hafa upplifað. En þá er betra að búið sé að fara vel yfir þá hluti og ígrunda þá vel áður en ákvarðanir eru teknar.

En hvað gerir Alþingi? Alþingi er stjórnarskrárgjafinn eins og fyrirkomulagið er í dag. Við höfum talað um að við ættum að styrkja Alþingi en við værum klárlega að veikja það ef við tækjum stjórnarskrárvaldið af þinginu. Alþingi er löggjafarvald, stjórnarskrárvald og fjárveitingavald og við værum þá að taka frá því eitt af þremur veigamestu hlutverkum þess. Það hefur einmitt verið stór hluti af umræðunni undanfarnar vikur og mánuði að styrkja Alþingi en það værum við alls ekki að gera með því að taka frá því stjórnarskrárvaldið. Það væri skárra ef stjórnlagaþingið væri ráðgefandi. Væri þá kannski hægt að fá málamiðlun á milli þess að það sé þingið sem ræður og að fá utanaðkomandi strauma inn í þessa umræðu, það gæti verið jákvætt. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að ígrunda betur og sjá hvernig þetta gengur fyrir sig annars staðar.

Frú forseti. Ég sé ekki að það hafi hv. nefnd gert enn sem komið er en hún gæti auðvitað gert það milli 2. og 3. umr. Ég tala ekki um ef líða ættu þrjár vikur á milli umræðna eins og segir í tillögum stjórnarskrárnefndarinnar frá síðasta kjörtímabili.