136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er að taka aftur til máls framsögumaður okkar sjálfstæðismanna úr sérnefnd um stjórnarskrármál, hv. þm. Björn Bjarnason. Í gær var mjög til vansa hvernig framkvæmdarvaldið með forsætisráðherra í broddi fylkingar og fjármálaráðherra, þá tvo sem eru líka flutningsmenn þessa frumvarps, hlýddu ekki kalli þingmanna. Þeir hlýddu ekki kalli okkar héðan úr þinginu um þá einföldu bón, um þá einföldu ósk að hlusta á ræður og athugasemdir í þessu mikilvæga máli.

Ég skil svo sem vel að þeir gæfu sér ekki tíma til þess að mæta hingað ef um væri að ræða eitthvert einfalt mál sem ekki væru miklar deilur um. En þeir koma ekki, reyndu ekki einu sinni að mæta í gær og hlusta sérstaklega á ræður þeirra sem eru í nefndinni um stjórnarskrármálið. Nú er hv. þm. Björn Bjarnason að hefja ræðu í annað sinn í þessu máli og ég óska eftir því að fá að vita hvernig forseti sér fyrir sér að þinghaldið þróist. Ég óska eftir því að framsögumenn, ekki eingöngu hv. þm. Birkir J. Jónsson heldur fyrst og síðast flutningsmenn, 1. flutningsmaður málsins, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mæti í þingsal á öðrum degi umræðna um þetta mikilvæga mál og hlýði og hlusti á ræður og (Forseti hringir.) athugasemdir þingmanna sem hér halda tölur.

(Forseti (KHG): Hæstv. forsætisráðherra er í húsinu og hefur trúlega hlustað á ræður þingmanna.)