136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þróunin hefur verið dapurleg hér síðasta sólarhring. Rétt er að minnast þess að við hófum umræðuna síðdegis í gær og framsögumennirnir og flutningsmennirnir hafa ekki verið í þingsalnum, hvorki í dag né í gærkvöldi þegar var farið fram á það. Þess vegna velti ég því fyrir mér þegar þingmenn hér inni og sérstaklega stjórnarflokkanna tala um að efla þurfi virðingu Alþingis og auka vald Alþingis hvort það sé bara í nösunum á þeim, því þeir fylgja ekki eftir einfaldri ósk þingmanna um að flutningsmenn frumvarpsins verði í þingsal og hlusti á ræður.

Mér finnst miður ef ekki er heldur hlustað á hæstv. forseta þegar hann fyrir hönd löggjafarvaldsins fer fram á að framkvæmdarvaldið sitji í þingsal á meðan við ræðum stjórnarskrármálið. Mér finnst það miður og finnst þingið hafa sett niður. Ekki bara vegna frumvarpsins sem við (Forseti hringir.) ræðum, en þar er verið að setja löggjafaravaldið niður, heldur er líka mikil vanvirðing í því hvernig hæstv. forseti er meðhöndlaður (Forseti hringir.) í samskiptum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.