136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er nú svo að þetta mál er hér til umræðu í þinginu vegna þess að ákveðnir stjórnmálamenn, ákveðnir hv. alþingismenn og stjórnmálaflokkar telja brýna nauðsyn á að koma málinu hér í gegn. Þeir telja brýna nauðsyn á því að ræða tilteknar breytingar um stjórnarskrána, eða svo skyldi maður halda, að þeim fyndist brýnt að koma þessu í gegn.

Þess vegna vekur furðu áhugaleysi þeirra hv. þingmanna sem eru upphafsmenn málsins, höfðu forgöngu um samningu frumvarpsins, settu það í verkefnaskrá ríkisstjórnar sinnar og fluttu svo málið hér á þingi, að þeir skuli þá ekki hafa þann áhuga á málinu sem þeir hafa lagt svona mikla áherslu á. Að þeir skuli ekki mæta hér eða taka þátt í 2. umr. um málið.