136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi í þingsögunni að fjallað sé um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins á föstudagskvöldi þar sem forsvarsmenn ríkisstjórnar, þ.e. flutningsmenn, virðast hafa öðrum hnöppum að hneppa en að mæta hér. Þau láta ekki sjá sig við umræðuna, létu vart sjá sig við 1. umr., hvað þá núna. Það gleður mig að sjá hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mæta í umræðuna, ég hef lítið séð af honum undanfarna daga (Gripið fram í.) en það er gleðilegt að sjá hann. (Gripið fram í.)

Fyrst og fremst er náttúrlega með ólíkindum að það sé boðið upp á það af hálfu forsætisnefndar þingsins, og ég treysti því að sá forseti sem situr nú á stóli beri forseta þau tíðindi, að breytingar á stjórnarskipunarlöggjöfinni séu ræddar á Alþingi Íslendinga á föstudagskvöldi þegar klukkan er að detta í 10. Það er slík móðgun að við þetta er ekki hægt að una.