136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka spurningar sem hafa komið fram um það hversu lengi verði haldið áfram með þingfund. Við erum búin að vera nótt eftir nótt á þingi og við ræðum stjórnarskrána og enn og aftur verðum við vitni að því að hæstv. ráðherrar, flutningsmenn frumvarpsins — það er rétt að geta þess að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er búinn að vera nokkuð iðinn við kolann að sitja í þingsal en aðrir, þ.e. ráðherrar, (Gripið fram í.) hafa sýnt þinginu eindæma hroka.

Ég er farin að huga að því hvort hugmyndin með stjórnlagaþinginu sé ekki einmitt sú að færa umræðuna úr þingsalnum af því að ráðherrar kveinka sér einfaldlega undan því að svara eðlilegum spurningum í samhengi við málið. Það er engu svarað af hálfu hæstv. ráðherra. Ég spyr því enn og aftur, frú forseti: Hversu lengi verður haldið hér áfram? Ég tel alveg einsýnt í ljósi fenginnar reynslu, ekki síst af hálfu þess flokks sem frú forseti situr í, að ekki verði gert hlé á umræðunni (Forseti hringir.) þar til framsögumenn málsins, sem sitja í ríkisstjórn, (Forseti hringir.) mæta hingað í þingsal. Það er samt lágmarkskurteisi.