136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að minna forseta á að hann er forsetinn minn alveg eins og forseti ríkisstjórnarinnar, hann er forseti allra þingmanna, ekki bara stjórnarmeirihlutans. Af þeirri ástæðu verður forseti að fara að hlusta á óskir okkar. Við erum búin að standa hér og ræða þetta mál, frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra flytja en þeir hafa verið fjarstaddir. Við höfum spurt spurninga og það gengur ekki að fundurinn fari hér fram án þess að þeir hlýði á mál okkar. Annars þurfum við að endurtaka ræðurnar trekk í trekk.

Ég ætla að gera forseta það tilboð að komi flutningsmenn þessa frumvarps ekki í salinn og verði við umræðuna fresti forseti umræðu um þetta mál þannig að við getum farið að ræða um atvinnuuppbyggingu í landinu, við getum farið að ræða um álverið í Helguvík og önnur brýn mál sem eru á dagskrá. Það er á valdi forsetans að breyta dagskránni, ekki okkar þingmanna. Við sjálfstæðismenn erum tilbúnir til að láta þetta mál til hliðar (Forseti hringir.) svo við getum rætt atvinnumálin og ég skora á hæstv. forseta (Forseti hringir.) að taka þessu góða tilboði mínu vegna þess að það er það sem fólkið í landinu vill að verði gert.