136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hóf ræðu mína á slaginu níu, fyrir réttum rúmum klukkutíma, fyrir tómum sal þar til hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem sat hér mestan hluta ræðu minnar, kom í salinn. Fleiri voru ekki þar til hv. þm. Ellert B. Schram kom og sat í smástund. Það var ekki fyrr en rétt undir lok ræðu minnar að formaður sérnefndarinnar, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, kom.

Ég leyfi mér að halda því fram að í ræðu minni fór ég yfir mjög mikilvæg mál er varða þetta frumvarp. Ég lýsti því m.a. að þó svo við sjálfstæðismenn séum ein sem höldum þessum sjónarmiðum á lofti innan þingsins þá er það sannarlega ekki svo þegar skoðaðar eru ábendingar og umsagnir þeirra fjölmörgu aðila sem leitað var til með málið þótt þeim hafi gefist stuttur tími til umsagna. (Forseti hringir.) Við sjálfstæðismenn eigum skoðanabræður og -systur úti um allt fræðasamfélagið, (Forseti hringir.) hjá sérfræðingunum, hjá þeim sem mest og gerst þekkja til (Forseti hringir.) og því hefði ég kosið að fleiri þeirra sem fara með völdin og eru flutningsmenn (Forseti hringir.) þessa frumvarps hefðu hlýtt á mína ágætu ræðu, herra forseti.