136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:08]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er sérstök ástæða til að fagna því að hæstv. forsætisráðherra er komin til að hlusta á þessa umræðu og við höfum fengið upplýst að hæstv. fjármálaráðherra komi um ellefuleytið, en það vekur upp þá spurningu: Hvað ætlar hæstv. forseti að halda okkur lengi í nótt? Við erum búin að vera hér mörg kvöld og langt fram á nætur eins og hér hefur margsinnis verið bent á. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forseti viti að það er föstudagur. Við eigum að mæta klukkan hálfellefu í fyrramálið á þingfund og ég óska eftir, líkt og ég gerði í gærkvöldi ekki með miklum árangri, að virðulegur forseti upplýsi okkur um það: Ætlar hann að hætta kl. hálftólf, tólf eða eitt, hálftvö, tvö eða þrjú? Hvenær ætlar hann að hætta?