136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er eins og aðrir mjög glöð að sjá hæstv. forsætisráðherra hérna þótt ég vildi sjálf prívat og persónulega að hún væri í Strassborg að gæta hagsmuna íslenska ríkisins. En það er ágætt að sjá hana hér vegna þess að ástæða þess að hún fór ekki þangað var gefin sú að svo mikið væri að gera á innanlandsvettvangi sem hlýtur að vera það að fylgja þessu máli, sem er greinilega mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar, úr hlaði.

Virðulegi forseti. Ég kom einnig hérna upp vegna þess að sá forseti sem situr nú á forsetastól missti af minni ræðu áðan. Þar gerði ég athugasemd við málflutning hans fyrr í dag þess efnis að hann taldi það til marks um forgangsröðun okkar sjálfstæðismanna að það að við værum svo mörg á mælendaskrá hlyti að þýða það að við værum að leggja ofuráherslu á þessar stjórnarskrárbreytingar. Ég hlýt að kalla það því rétta nafni að þetta sé ómerkileg hártogun af hálfu forseta vegna þess að eins og hann margsinnis hefur heyrt og hlustað á (Forseti hringir.) erum við búin að fara fram á það að dagskránni verði breytt, (Forseti hringir.) en á meðan við höfum ekki dagskrárvaldið verðum við að lúta dagskrárvaldi forseta.