136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:17]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sjónarmið sem ég hef sett fram áður að mér finnst óviðurkvæmilegt að ræða um breytingar á stjórnarskránni þegar komið er jafnlangt fram á kvöld. Mér finnst eðlilegt að það sé rætt í dagsbirtu þegar þjóðin hefur tækifæri til að fylgjast með umræðunum hér.

Ég er ekki sammála hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að forsætisráðherra væri betur komin úti í Brussel en hér, (KÓ: Strassborg.) eða hvar sem er. Ég tel að hún sé best komin hér til að fylgjast með umræðunum og eiga virk skoðanaskipti við okkur þingmenn um þau atriði sem máli skipta. Hún er 1. flutningsmaður þessa óskapnaðar sem var lagður fram sem breyting á stjórnarskrá og það skiptir máli að hún fái að hlusta og fylgist með þeim sjónarmiðum sem hér eru uppi og hvaða breytingar þurfi að verða til að það séu boðlegar breytingar á stjórnarskipun íslenska lýðveldisins þannig að ekki verði gripið til þess að hér verði stjórnskipuleg ringulreið, eins og allt stefnir í ef (Forseti hringir.) við sjálfstæðismenn getum ekki stoppað þann óskapnað (Forseti hringir.) sem hér er í farvatninu.