136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mjög ánægjulegt að 1. flutningsmaður málsins, hæstv. forsætisráðherra, er mættur á svæðið svo við getum fengið viðbrögð hans við umræðunni. En ég ætla að ræða um annað, ég hef beðið um að þessari umræðu yrði frestað þannig að við gætum farið að ræða um mál sem skipta þjóðina máli, álver í Helguvík, gefa þjóðinni von um að atvinna aukist o.s.frv. sem er einmitt það sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt áherslu á, a.m.k. meðan hún var félagsmálaráðherra, að gefa fólkinu von og færa því atvinnu.

Þá kemur upp sá vandi að á dagskrá eru nokkur mál þar sem ég er með fyrirvara, frú forseti, t.d. á ég eftir að skrifa nefndarálit um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Mér hefur ekki unnist tími til þess út af þessari umræðu. Þá ætla ég að biðja um að þeirri umræðu verði frestað, endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Nú spyr ég frú forseta: Eru líkur til að það gerist einhvern tíma í nótt, fyrir klukkan 6 eða 7, að þessi mál komi á dagskrá?