136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og ítrekað hefur komið fram hjá okkur sjálfstæðismönnum þá þyrstir okkur, og ekki bara okkur heldur þjóðina alla, í það að við förum að ræða málin sem skipta máli. Við viljum ræða atvinnumálin. Við viljum ræða málin sem snerta hag heimila og fyrirtækja í landinu. Við viljum ræða fjárfestingarsamninginn um Helguvík. Við viljum ræða þau mál sem skipta máli.

Nú upplýstist það að hæstv. forsætisráðherra hefur greinilega ekki náð eða haft tækifæri til að kynna sér umsagnir. Þó svo að hún kynni sér ekki ræður okkar sjálfstæðismanna þá er algerlega ljóst miðað við hvernig hún talaði hér áðan að hún hefur ekki náð að kynna sér í þaula þær umsagnir sem borist hafa með þessu frumvarpi. Þannig að ég legg til að fundi verði slitið, dagskrá fundarins sem búið er að boða í fyrramálið verði breytt og við förum að ræða atvinnumálin og gefum hæstv. forsætisráðherra tækifæri til þess að kynna sér þessi mál betur.