136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:06]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill vekja athygli á því að ítrekað hefur komið fram að hér eru fundir skipulagðir með formönnum þingflokka. Við hittumst síðast í hádeginu og hittumst í hádeginu á morgun. Þar hefur komið fram að við ætlum að vera fram yfir miðnætti. Það lá fyrir og nú liggur fyrir hvenær við ætlum að hætta í kvöld. Á morgun hættum við einhvern tíma um fimmleytið, plús/mínus.

En forseti verður hreinskilnislega að segja að framgangur á 26 manna mælendaskrá er afar hægur og stefnir í að hér verði þing allt fram til 23. apríl ef svo fer fram sem horfir. Það verður þá bara að skoðast í því samhengi. Það er einlægur vilji forseta að ljúka þinginu sem fyrst. En ekki er hægt að hafa af mönnum tækifæri til að ræða mál og verður að bera virðingu fyrir því að hér eru margir sem vilja taka til máls.