136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:09]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Þá er vonandi komið að síðustu ræðu dagsins. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er hér til 2. umr. og við höfum fjallað um stjórnlagaþing í fleiri klukkustundir, alveg frá því í gær. Þeir sem fara með völdin hér á Alþingi Íslendinga geta ekki unnt okkur sjálfstæðismönnum þess að hafa skoðun á málunum eins og sést í þessari umræðu um stjórnarskrármálið og hefur rækilega komið fram í máli stjórnarliða. Það virðist vera synd og skömm ef við höfum skoðun á málunum en stjórnarflokkarnir ákváðu að fara fram með þetta mál og sniðganga þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þess flokks sem hefur flesta þingmenn á Alþingi Íslendinga. Þetta eru makalaus vinnubrögð.

Það frumvarp sem hér er til 2. umr. er um breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins, sjálfri stjórnarskrá Íslands. Í dag er 3. apríl og rétt rúmar þrjár vikur eru til kosninga og inn í þessar vikur kemur páskavikan svo að þingmönnum gefst lítið tækifæri til að fara út í kjördæmin sín og hitta kjósendur fyrir komandi kosningar en það vill svo vel til að það býr fólk úti á landi. (Gripið fram í: Enn þá.) Fólk býr ekki bara á Stór-Reykjavíkursvæðinu — ég held að þeir sem stjórna hér ættu að fara að gera sér grein fyrir því — svo að við tölum nú ekki um færð á vegum eins og tíðarfarið er. Við þurfum ekki annað en að hlusta á veðurspána en eftir helgina er gert ráð fyrir að það fari að kólna og verði meiri norðanátt. Tíðarfarið hefur verið slæmt, á Norðurlandi, Austurlandi og Vesturlandi, og þeir landsbyggðarþingmenn sem eiga að fara í kosningabaráttuna hafa ekki mikinn tíma til að búa sig undir það.

Ríkisstjórnin ákvað um mánaðamótin janúar/febrúar, eða um leið og hún tók við völdum, að beita sér fyrir breytingum á nokkrum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það voru ríkisstjórnarflokkarnir, eða minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ákvað að gera það. Sömdu við Framsókn um tiltekið atriði í þessu sambandi, sem við vitum náttúrlega öll hvað er, þ.e. að koma á stjórnlagaþingi. Síðan fengu þeir Frjálslynda flokkinn í lið með sér.

Hæstv. forseti. Snemma í febrúar var settur á fót ráðgjafahópur þriggja manna til að undirbúa og útfæra tillögur sem ríkisstjórnin var búin að leggja fram. Minni hlutinn átti ekki fulltrúa í þeim þriggja manna hópi. Hópurinn skilaði endanlegum tillögum í lok febrúar og í byrjun mars var frumvarpið lagt fram á Alþingi, eða 6. mars sl. Nú hefur það verið í meðförum Alþingis í rúmar þrjár vikur og kvarta stjórnarflokkarnir og þeir sem fylgja þeim að málum, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, mjög yfir því að við sjálfstæðismenn séum að tefja meðferð þessa máls eins og fram kom í máli hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur í umræðunum í gær. Hún talaði um að við sjálfstæðismenn mundum rövla og að fýlan mundi leka af okkur og að við séum að setja upp leikrit. Þessi orð dæma sig sjálf.

Við sjálfstæðismenn erum jafnmikilvæg í umræðunni og aðrir þingmenn hér á hinu háa Alþingi. Ég vil að það komi skýrt fram, hæstv. forseti, að við tökum þó þátt í umræðunni um stjórnarskipulag þingsins og um stjórnarskrána sem hinir flokkarnir hafa takmarkaðan áhuga á. Það gleymist hins vegar oft í þeirri umræðu að áform stjórnarflokkanna um breytingar nú ganga út á það að keyra málið í gegn með miklu skemmri aðdraganda og undirbúningi en nokkru sinni fyrr og án pólitísks samráðs auk þess sem afar skammur tími er til málsmeðferðar í þinginu.

Alla tíð hefur mikil áhersla verið lögð á það að ná víðtækri sátt um málið og að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna komi að undirbúningi og breytingum á stjórnarskrá Íslands, en eins og við þingmenn höfum orðið varir við hefur það ekki verið í þessu tilfelli. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sniðgenginn frá byrjun. Það er því mjög athyglisvert, virðulegi forseti, sem fram kom í máli hv. þm. Daggar Pálsdóttur hér í umræðunni í hádeginu í dag. Það var miður að aðeins tveir úr stjórnarliðinu voru hér í þingsal þegar hv. þingmaður fór yfir afstöðu þingmanna Vinstri grænna hér á hinu háa Alþingi vorið 2007 en þá voru þessir flokkar í minni hluta. Þá voru til umræðna breytingar á stjórnarskránni. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætluðu að knýja fram breytingar á stjórnarskránni. Þá vildi svo vel til að sá meiri hluti sem var þar við völd hlustaði á minni hlutann. Við sáum þá að Sjálfstæðisflokkurinn tekur tillit til skoðana annarra.

Ég segi því, hæstv. forseti: Þetta sýnir áhuga þeirra flokka sem eru hér við völd núna, eru þeir komnir í kosningabaráttu eða hvar eru þeir? Ekki eru þeir hér á hinu háa Alþingi. (Fjmrh.: Ég er hér.) Þakka þér fyrir, hæstv. fjármálaráðherra, að þú skulir hlýða á mál mitt.

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í 1. umr. hér í þinginu, um breytingar á stjórnarskránni, 10. mars sl., var sú hugmynd uppi hjá fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að fara í þessar breytingar og vinnu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Breytingin var ætluð seinni hluta kjörtímabilsins 2009–2011, og átti þá að fara í slíka vinnu.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvalds, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu. Þegar maður hugsar um það frumvarp sem hér er lagt fram og horfir til virðingar Alþingis út á við og spurningarinnar um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu undrast maður að þeir menn sem mest hafa talað um að verið sé að styrkja stöðu Alþingis og efla skuli standa að tillögu að því að veikja Alþingi og í leiðinni svipta Alþingi valdinu til að breyta stjórnarskránni. Þessar kröfur eru um að Alþingi stígi til hliðar og aðrir taki völdin. Með frumvarpinu er verið að setja Alþingi í aukahlutverk. Við erum með því að gefa frá okkur stjórnarskrárvaldið.

Hæstv. forseti. Forsendurnar eru kröfur framsóknarmanna. Í því sambandi er verið að þjóna Framsókn sem ver þessa minnihlutastjórn falli. Mér finnst það ótrúlegt að Framsóknarflokkinn skuli ætla að keyra þetta mál hér í gegnum þingið á svo stuttum tíma sem raun ber vitni.

Mér fannst fróðlegt að heyra ummæli hv. þm. Björns Bjarnasonar þegar hann vitnaði í fyrsta mann á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi þegar hann talar um þá stjórn sem flokkur hans er að verja. Hann undrast það hve lítið hafi gerst og að Framsóknarflokkurinn hafi lagt þetta á sig til að verja þessa stjórn, að lítið hafi gerst í atvinnumálum, (Gripið fram í.) að lítið hafi gerst til þess að koma heimilunum í landinu til hjálpar.

Hæstv. forseti. Lögmenn hafa bent á að fresturinn sem gefinn var hafi verið allt of skammur og í umsögnum um frumvarpið hefur komið fram að lögmenn eru mótfallnir því. Þessi breyting á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, með því frumvarpi sem hér er lagt fram, hefur enga þýðingu fyrir vanda sem fyrirtæki og heimili í landinu standa frammi fyrir. Vandi þeirra er risavaxinn og eru fyrirtækin í landinu mörg að komast í þrot. Ekki veitir af aðgerðum þeim til handa og það fljótt en hver vikan líður og ekkert gerist. Ekki hefur staðið á okkur sjálfstæðismönnum að veita þeim málum forgang er snerta heimilin í landinu og fyrirtækin. Því miður hefur lítið verið um þau mál hér á hinu háa Alþingi. Við erum tilbúin að greiða fyrir brýnum málum sem varða atvinnumálin. Fyrirtækin eru að ganga á sinn eigin forða og rúmlega það.

Það var því dapurlegt að sjá í gær þegar dagskrá þingsins var komin fram, herra forseti, að brýn mál eins og heimild til samninga um álverið í Helguvík voru sett aftarlega á dagskrá þingsins en stjórnarskrárfrumvarpið var sett í forgang. Ekki get ég séð að það hjálpi fólkinu í landinu sem er að missa atvinnu sína. Nær hefði verið að taka strax til umræðu samninginn um álverið í Helguvík sem skapar störf fyrir fólkið í landinu, áætlað er að það verði 800–1.000 störf og alveg upp í 1.500. En af því að sá samningur þóknaðist ekki Vinstri grænum var það mál ekki í forgangi. Námsfólk sér fram á atvinnuleysi í sumar eins og fram kom í umræðunum hér fyrr í dag. Væri nú ekki brýnt fyrir ríkisstjórnina að koma málum Helguvíkur á dagskrá eins og við sjálfstæðismenn höfum svo oft bent á bæði í gær og í dag? Það mál skapar störf í landinu.

Allur sá undirbúningur sem þarf að fara fram við uppbyggingu álvers, bæði fyrir verktaka og fleiri aðila sem koma að uppbyggingu slíkra mannvirkja — tæknifræðingar, verkfræðingar, háskólafólk fær vinnu við hönnun þeirra. Mikil hönnunarvinna við uppbyggingu á svona stóru mannvirki er mannaflsfrek og þar geta námsmenn komið að.

Virðulegi forseti. Er ríkisstjórnin að hugsa um atvinnu fyrir fólkið í landinu? Ég vil koma því að að mesta atvinnuleysið á landinu er á Suðurnesjum, um 1.800 manns, svo það er ekki furða þó að fólk á Suðurnesjum bíði eftir því að mál Helguvíkur komist á dagskrá þingsins svo það fái atvinnu.

Sem betur fer var búið að ákveða að hefja hvalveiðar á ný. Það kemur til með að veita fólki atvinnu, hvort sem það eru verkamenn, sjómenn eða námsmenn. Hér áður fyrr sóttist fólk sem var við nám í háskólanum eftir að fá vinnu í Hvalstöðinni í Hvalfirði á sumrin og vann þannig fyrir náminu. Ég veit að margir eiga mjög góðar minningar þaðan frá þeim tíma. Mér finnst það því mjög þakkarvert að hæstv. sjávarútvegsráðherra sló ekki af það sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra var búinn að gera til atvinnuuppbyggingar hér á Vesturlandi, sem mun koma þessari þjóð til góða.

Það hefur verið sagt að viðbrögð valdhafa við kreppu séu oft verri en kreppan sjálf. Sú fyrirætlan stjórnvalda nú að leggja í stjórnskipulega óvissuferð í miðjum storminum gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Á undanförnum mánuðum hefur reynt mjög verulega á innviði og stoðir íslensks samfélags. Þótt ýmislegt hafi undan látið hafa styrkar stoðir stjórnarskipunarinnar haldið. Mig langar til að vitna hér aftur í grein Skúla Magnússonar sem ég vitnaði í hér í 1. umr. um þetta mál 10. mars sl., með leyfi forseta:

„Efnahagskreppa og stjórnskipuleg ringulreið eru slæmur kokteill svo ekki sé sterkara tekið til orða. Um stjórnarskrána gildir, líkt og margt annað, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu eru lagðar til ferns konar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í fyrsta lagi verði bætt við hana nýrri grein sem fjalli um eignarhald og nýtingu á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti sem og ákvæði um rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og að líffræðilegri fjölbreytni sé viðhaldið.

Í öðru lagi er lagt til að fyrirkomulagi þess hvernig breytingar á stjórnarskránni eru samþykktar verði breytt á þann veg að þær verði framvegis bornar undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar eftir samþykkt Alþingis.

Í þriðja lagi er lagt til að fest verði í stjórnarskrá ákvæði þess efnis að Alþingi skuli láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög eða málefni sem varða almannahag ef tiltekinn fjöldi kjósenda krefst þess.

Loks er lagt til að við stjórnarskrána bætist um stundarsakir ákvæði þess efnis að forseti Íslands skuli boða til stjórnlagaþings til endurskoðunar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Sjálfstæðismenn vilja gera breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar eins og kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hér rétt áðan. Sjálfstæðisflokkurinn telur engu að síður þörf á að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hefur lagt fram tillögur í þeim efnum eins og hv. þm. Þorgerður Katrín gerði svo rækilega grein fyrir. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag telja sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef sú leið verður farin á yfirstandandi þingi og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar án þess að rjúfa þing.

Ég vil, hæstv. forseti, láta það koma fram, eins og ég gat um áðan, að Lögmannafélag Íslands leggst eindregið gegn frumvarpinu og í umsögn þeirra segir að stjórnarskrárbreytingar þurfi að gera að vel athuguðu máli og í mikilli sátt. (Gripið fram í: Umsögn á einni blaðsíðu.) Þar segir einnig að breytingar þurfi frekari athugunar við, að þversögn sé að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og koma á sama tíma á fót stjórnlagaþingi.

Umsagnaraðilar höfðu athugasemdir við orðalag í 1. gr. frumvarpsins. Í umsögn Landverndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Landvernd telur ekki heppilegt að orðin „á sem hagkvæmastan hátt“ séu höfð í 2. mgr. 1. gr. Betur færi að 2. mgr. hljóðaði einfaldlega svo: „Allar náttúruauðlindir ber að nýta á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.““

Í umsögn Félags umhverfisfræðinga á Íslandi kemur fram að:

„Félagið tekur almennt ekki afstöðu til þess hvort æskilegt sé að ríkið fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda. Fjölmörg dæmi eru um það í sögu mannkyns að ríki hafi misnotað náttúruauðlindir, í umboði sinnar þjóðar, innan eða utan síns lögsagnarumdæmis. Einnig eru fjölmörg dæmi um að löggjöf, sem á að kveða nánar á um hlutverk ríkisins í þessu sambandi, hafi ekki þjónað því hlutverki að vernda náttúruauðlindir gegn ofnýtingu. Á þetta skal bent í upphafi til að árétta að það tryggi ekki endilega bestu nýtingu náttúruauðlinda að fela umsjá þeirra ríkinu í hendur.“

Í umsögn Samorku, Samtaka orku- og veitufyrirtækja kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Framangreint frumvarp barst Samorku með tölvupósti klukkan 18:09 föstudaginn 13. mars sl. með ósk um að umsögn yrði skilað eigi síðar en föstudaginn 20. mars. Frumvarpið hefur að geyma fjórar greinar. Samorka sér eingöngu ástæðu til að fjalla um 1. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um auðlindir og umhverfismál.

Ekki þarf að koma á óvart að Samorka hefði kosið að hafa miklum mun lengri frest til að fjalla um stjórnarskrárákvæði sem varða þessi atriði. Lýsa samtökin mikilli óánægju með þessi vinnubrögð við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Að svo miklu leyti sem samtökunum hefur gefist færi á að ræða efni 1. gr. frumvarpsins vilja þau gera við hana nokkrar athugasemdir.

Samorka metur umfjöllunina þannig að þessi nýi eignarréttur eigi í raun eingöngu við um þjóðlendur þegar orka og vatnsréttindi eru annars vegar þar sem hefðbundinn einkaeignarréttur getur átt við um eigur ríkisins. Þetta kemur hins vegar ekki skýrt fram í frumvarpinu.“

Samorka vill að 1. gr. frumvarpsins verði frestað. „Hæst ber þó sá afar skammi tími,“ segir í umsögn Samorku, „sem umsagnaraðilum um frumvarpið er ætlaður til þess að móta afstöðu til tillagnanna um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af þessum ástæðum leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði í 1. gr. frumvarpsins.“

Undir umsögn Samorku tekur Rarik, með leyfi forseta:

„Rarik ohf. tekur undir umsögn Samorku í einu og öllu. Jafnframt vill Rarik ohf. leggja sérstaka áherslu á gagnrýni á þau vinnubrögð sem í þetta skiptið eru viðhöfð við breytingu á stjórnarskránni. Ekki eingöngu er tíminn sem Alþingi ætlar umsagnaraðilum til að gefa álit sitt á frumvarpinu allt of stuttur heldur er ekki leitað umsagnar aðila eins og Rariks ohf. sem í 70 ár hefur starfað við nýtingu þeirra auðlinda sem verið er að fjalla um í frumvarpinu. Átelur Rarik ohf. þessi vinnubrögð.“

Í áliti minni hluta sérefndar um stjórnarskrána kemur fram:

„Loks má geta þess að í upphaflegum frumvarpstexta voru í 1. gr. frumvarpsins afar óljós og óskilgreind hugtök á borð við „sjálfbær þróun“, „umhverfi sem stuðlar að heilbrigði“ og „líffræðileg fjölbreytni“. Ómögulegt er að segja til um hvað felst í sjálfbærri þróun að íslenskum rétti, engin skilgreining liggur fyrir á því hvers lags umhverfi stuðlar að heilbrigði og umdeilt hvort umhverfi sem stuðlar að viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi sé eftirsóknarvert í þeim eyðimörkum sem þekja stóran hluta landsins. Umsagnaraðilar gera margir hverjir athugasemdir við hugtakanotkun sem sé óskýr og hætta verði á ágreiningi um túlkun varðandi ýmsa þætti, samanber umsögn Félags umhverfisfræðinga í fylgiskjali 23. Þannig virðast þær efasemdir sem menn hafa um hugtakið þjóðareign magnast nokkuð þegar framangreind hugtök eru rædd.“

Sama kemur fram í umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna en í umsögn þeirra segir, með leyfi forseta:

„Við leggjumst alfarið gegn því að þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins nái fram að ganga. Það er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að búa við stöðugt laga- og rekstrarumhverfi en þetta frumvarp gengur þvert þar á. Fiskveiðistjórn okkar Íslendinga sem byggir á því að handhafar veiðiheimilda hafi tryggan rétt til veiðiheimilda sinna er undirstaða undir velgengni íslensks sjávarútvegs og lykillinn að því að hér er rekinn ábyrgur, arðsamur og sjálfbær sjávarútvegur. Það að handhafar veiðiheimildanna fara með þær sem eign sína hvetur einnig til ábyrgrar umgengni um nytjastofna.

Samkvæmt frumvarpinu eru náttúruauðlindir, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, lýstar „þjóðareign“. Í raun eru þessar náttúruauðlindir lýstar eign ríkisins en af einhverjum ástæðum er búið til hugtakið þjóðareign þó að ekki verði séð hvaða tilgangi það þjónar. Þetta hugtak er afar óskýrt og sama má segja um hugtakið „sjálfbær þróun“. Óskýr hugtök sem skapa réttaróvissu á ekki að setja inn í stjórnarskrána.“

Síðar í umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna segir:

„Rétt er að vekja athygli á því að víða um heim þar sem fiskveiðum er stjórnað á ábyrgan hátt hafa þjóðir, rétt eins og Íslendingar, áttað sig á því hversu mikilvægt er til að ná þessu takmarki að skilgreina vel rétt þeirra sem veiðarnar stunda. Ómögulegt er að sjá hvers vegna Alþingi ætti að leggja stein í götu þessa markmiðs með því að skapa réttaróvissu um íslenskan sjávarútveg. Við ítrekum því áskorun okkar um að láta verða af því að lögfesta 1. gr. frumvarpsins.“

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda, sem mér fannst fín umsögn, kemur fram að þeir voru miður sín yfir hversu knappan tíma þeir höfðu til umsagnar um þetta mikilvæga mál, en þar segir:

„Frá því að hin gríðarlegu efnahagslegu áföll riðu yfir þjóðina í byrjun október 2008 hafa smábátaeigendur þurft að sitja undir því nánast daglega að „innkalla beri kvótann, þ.e. atvinnuréttinn, til ríkisins“. Engin önnur atvinnugrein í landinu hefur þurft að þola jafnniðurlægjandi umræðu. Umræðu sem einkennist af lýðskrumi og innantómum slagorðum.

Það vefst fyrir LS hver hugmyndafræðin er að baki 1. grein frumvarpsins og hvað hún þýðir í raun og framkvæmd.“

Í lokum umsagnar Landssambands smábátaeigenda er svo dálítið skemmtileg tilvitnun:

„Þá er með öllu útilokað fyrir okkur að vita hvaða þarfir komandi kynslóðir kunna að hafa. Forfeður okkar virðast samkvæmt skráðum heimildum ekki hafa haft minnstu hugmynd um þarfir núlifandi kynslóðar.“

Mér fannst þetta svolítið skemmtilegt þegar þeir koma með þessa tilvitnun um forfeður okkar, að þeir hefðu ekki haft minnstu hugmynd um þarfir núlifandi kynslóða.

Í nefndaráliti meiri hluta sérnefndar kom fram að tillit er tekið til þessara athugasemda á einhvern hátt.

Hæstv. forseti. Um þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að setja löggjöf og um hana þarf að vera góður rammi. Eins og hv. þm. Sturla Böðvarsson gat um í 1. umr. um málið, 10. mars sl., þá er það nauðsynlegt ef við þyrftum að fara í veigamiklar breytingar eins og t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild, ef okkur skyldi nú detta í hug að sækja um hana. Og ef stjórn Vinstri grænna og Samfylkingar taka við völdum að kosningum loknum þá skyldi enginn láta sér detta annað í hug en að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu miðað við það sem hæstv. forsætisráðherra lætur hafa eftir sér um aðild, að það eigi að bjarga öllum málum að fara inn í Evrópusambandið.

Ég tel að Alþingi verði að gefa sér góðan tíma til að skapa löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki ana að einu eða neinu í því sambandi.

Í umsögn Ragnhildar Helgadóttur, prófessors í stjórnskipunarrétti, kemur eftirfarandi fram um 1. og 3. gr. frumvarpsins. Ég vitna hér aðeins í ummæli hennar:

„Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Virðulegi forseti. Ég tel að hér verði, ef þetta frumvarp verður að lögum, endaskipti á hlutunum. Að mínu viti er mikilvægasta hlutverk löggjafarþingsins, Alþingis Íslendinga, að setja landinu grundvallarlög, þau lög sem öll önnur lög verða að byggjast á og mega ekki stangast á við. Nú er allt í einu með þessu frumvarpi verið að setja Alþingi í aukahlutverk, sem sagt umsagnarhlutverk.

Þegar 1. umr. fór fram 10. mars mátti ráða af framsögu hæstv. forsætisráðherra að það væri mikill ávinningur að því að þingfulltrúar á stjórnlagaþingi væru kosnir beinni kosningu en með því er verið að sniðganga Alþingi sem kosið er beinni lýðræðislegri kosningu af þjóðinni. Í stað þess að 63 þingmenn, kosnir af þjóðinni, vinni nýja stjórnarskrá eiga nú 104 einstaklingar að vera á launum hjá ríkinu næstu tvö árin við löggjafarstörf, að auki 20 áheyrnarfulltrúar sem reikna verður með að fái líka laun.

Hæstv. forseti. Ég tel mjög nauðsynlegt að ræða ítarlega þær tillögur sem settar eru fram í frumvarpinu um stjórnlagaþing og kostnað við það en engin tala hefur komið fram sem við getum reitt okkur á. Það stangast á, hún hækkar og lækkar eftir því hvernig stendur í bólið hjá þeim sem eru að fjalla um þessi mál, sem er með ólíkindum. Í 1. umr. var talað um 1,5 milljarða. Nú er talan komin upp í 2 milljarða og svo á að lækka þetta niður með einhverjum tillögum, breytingarnar koma hratt inn, maður er undrandi og veit eiginlega ekki hverju maður á að trúa.

Hæstv. forseti. Ég get alveg séð fyrir mér að boðað sé til stjórnlagaþings sem hafi það verkefni að vera Alþingi til ráðgjafar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það má líka alveg hugsa sér að starfstími Alþingis á næstu árum sé þannig skipulagður að sérstakur og rúmur tími gefist til umræðna um stjórnarskrárbreytingar og að sérstök þingnefnd verði sett á laggirnar í því sambandi. Það hefur oft verið rætt um að Alþingi geti setið fleiri vikur á ári hverju en verið hefur á undanförnum árum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að ætla að Alþingi og þingmönnum, sem eru fulltrúar þjóðarinnar — ég segi fulltrúar þjóðarinnar — að þeim verði gefinn meiri tími til að sinna þessu mikilvæga starfi á Alþingi, að setja landinu nýja stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Það mun augljóslega ekki gefast tími til þess á yfirstandandi þingi að fara í þessar nauðsynlegu breytingar og umræður sem þurfa að fara fram og því vaknar sú spurning hvað vaki fyrir hæstv. ríkisstjórn að ætlast til að flýtiafgreiðsla á svona mikilvægu máli hafi forgang. Það er í raun ótrúlegt við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu, þegar heimilin í landinu og atvinnulífið bíða eftir raunhæfum aðgerðum frá ríkisstjórninni. Hvað sjáum við með því frumvarpi sem hér er til umræðu, að það skuli eiga að njóta forgangs, það er með ólíkindum. Vera má að ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að taka þau vandamál sem eru brýnust og vilji þar af leiðandi taka tíma fyrir þetta. Ég er algjörlega ósammála þeirri forgangsröð eins og komið hefur fram í máli mínu.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna aftur í grein Skúla Magnússonar, en þar segir hann:

„Það er engin góð ástæða til að rífa stjórnskipun Íslands upp með rótum við núverandi aðstæður þar sem stjórnvöld þurfa að setja sér skýr markmið til lengri og skemmri tíma — sum eflaust sársaukafull og misvinsæl — og hafa styrk og þor til þess að vinna að þeim. Við munum ekki leysa aðsteðjandi vandamál með breytingum á stjórnskipun Íslands.“

Virðulegi forseti. Það er von mín að þessi ríkisstjórn vakni af þeim þyrnirósarsvefni sem hún sefur og hefur sofið síðan hún tók við fyrir tveimur mánuðum og að hún fari að koma á róttækum aðgerðum fyrir fólkið í landinu og standa við þau orð sem hún lét falla við ríkisstjórnarskiptin. Hún talaði um að hún yrði ríkisstjórn framkvæmdanna. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég, hæstv. forseti: Það skiptir fólkið í landinu máli (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin fari að taka til hendinni (Forseti hringir.) og láta verkin tala.