136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – frumvarp um stjórnarskipunarlög – röð mála á dagskrá.

[10:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því ef utandagskrárumræða að beiðni Sjálfstæðisflokksins getur nú hafist, tæplega hálfri klukkustund eftir að hún var tímasett.

Ég er einn af flutningsmönnum stjórnarskrárfrumvarpsins og hef fylgst með umræðum eftir því sem ég hef getað bæði í þingsal og í gegnum sjónvarp og síðastur manna ætla ég að gera athugasemdir við það sjálfstæðismenn komi sjónarmiðum sínum vel og rækilega á framfæri. Þeir hljóta því að vilja greiða fyrir því til að umræðan geti yfirleitt haldið áfram.

Ég sakna þess hins vegar mjög að sjálfstæðismenn útskýri fyrir okkur hvers vegna þeir eru á móti innihaldi stjórnarskrárfrumvarpsins, (Gripið fram í: Við erum löngu búnir að því.) hvers vegna sjálfstæðismenn eru á móti (Gripið fram í: Þú hlustar greinilega ekki á …) sameign á þjóðarauðlindum náttúruauðlindum, hvers vegna þeir eru á móti beinu lýðræði, að þjóðin fái að kjósa sjálf um mikilvæg mál, hvers vegna sjálfstæðismenn eru á móti því að þjóðin kjósi sjálf um stjórnarskrárbreytingar — það er sennilega eina ákvæðið sem þeir gætu hugsanlega lifað með — og hvers vegna þeir eru á móti því að þjóðin sjálf (Forseti hringir.) taki stjórnarskrána í sínar hendur. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að útskýra fyrir þingi og þjóð (Forseti hringir.) hvers vegna þeir eru á móti þessum sjálfsögðu málum.

(Forseti (ÞBack): Þetta eru umræður um fundarstjórn forseta.)