136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – frumvarp um stjórnarskipunarlög – röð mála á dagskrá.

[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að sá sem hér talaði síðast er sá hv. þingmaður og hæstv. ráðherra sem kvartaði yfir því að hér væri verið að ræða fundarstjórn forseta. Hann notar þetta tækifæri þegar hann hyggur að umræðunni sé lokið til þess að fara í efnislega umræðu um stjórnarskrármálið við okkur sjálfstæðismenn. Ég fagna því ef hæstv. fjármálaráðherra vill koma í efnislega umræðu við okkur sjálfstæðismenn um stjórnarskrármálið. Ég fagna því innilega og bendi honum á að hér verður umræða væntanlega í allan dag miðað við það sem forseti hefur gefið út og þá gefst ráðherranum tækifæri væntanlega oftar en einu sinni ef hann svo kýs til þess að koma í efnislega umræðu og þá á hann þess líka kost að heyra þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum fram að færa, en miðað við það sem hann sagði í ræðu sinni hefur hann ekki hlustað vel á það sem við höfum haft fram að færa.