136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Eins og forseti nefndi er hér um að ræða afskaplega mikilvæg mál, það eru ríkisfjármálin, framkvæmd fjárlaga og samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er augljóst að þetta er afskaplega mikilvægt umræðuefni og hefur alltaf verið en aldrei meira en nú.

Málið er mjög einfalt. Við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar af vinaþjóðum okkar sem lánuðu okkur fjármuni þegar við fórum í þessa efnahagslægð. Ef við stöndumst ekki þær skuldbindingar eigum við það á hættu — og það er raunveruleg hætta — að fá ekki þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er. Þetta mál, virðulegur forseti, er því grundvallaratriði til þess að við getum tekið málefnalega umræðu í kosningunum í vor.

Því miður er það svo að við höfum ekki fengið þá fyrirgreiðslu sem lagt var upp með og höfum ekki fengið þá lánafyrirgreiðslu sem stóð til að við fengjum í lok febrúarmánaðar.

Virðulegi forseti. Þessi umræða snýst um það eitt hver staðan sé og hvernig hafi gengið á þessum mánuðum. Af hverju skyldu menn vilja taka þá umræðu? Það er einfaldlega vegna þess, virðulegur forseti, að kjósendur eiga rétt á þessum upplýsingum og þeir eiga rétt á að fá þessar upplýsingar núna. Sömuleiðis er það algjört skilyrði að okkur sem sitjum hér á Alþingi gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt, ekki bara í blaðagrein heldur líka í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Við munum segja þjóðinni það fyrir kosningar sem við teljum óhjákvæmilegt að gera eftir kosningar.“

Ég fagna þessum ummælum og ég vonast til þess, virðulegi forseti, að umræðan hér á eftir verði af hálfu ráðherra og stjórnarliða upplýsandi og málefnaleg og að við fáum þær upplýsingar sem nauðsynlegt er til þess að við getum rætt þau mál sem hæst ber í aðdraganda kosninganna.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, að fram til þessa hafa þetta verið orðin tóm. Hér hefur engu verið svarað af hálfu ráðherra um hvar eigi að skera niður en einungis hefur verið boðað mikið af nýjum sköttum án þess að skilgreina nákvæmlega hvaða áætlun menn hafi. Það var haldin opinn fund í fjárlaganefnd. Þar komu engin svör. Í gærkvöldi var opinn fundur í heilbrigðisnefnd þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra kom en hann upplýsti okkur ekki um þessi mál að undanskildu því að staðfest var að áætlanir standast ekki, fjárlögin standast ekki. Það er algjörlega ljóst að heilbrigðisstofnanir standast ekki þær áætlanir sem lagt var upp með. Það er mjög alvarlegt og í sumum tilfellum eru þetta háar prósentur, 12%–16%. Hvað þýðir það, virðulegur forseti, ef menn fara í mitt ár með halla upp á 16%? Það þýðir það að menn þurfa að skera niður sem nemur 32% á síðasta hluta ársins.

Því miður hafa menn verið að færa allar erfiðar ákvarðanir og færa þær fram yfir kosningar. Þess vegna, virðulegi forseti, erum við hér með ákveðnar spurningar og ég ætla að fara yfir þær:

1. Hvernig er framvinda ríkisrekstrarins árið 2009 miðað við fjárlög ársins? Þetta er grundvallarspurning og ef hæstv. ráðherra getur ekki svarað því hér er mjög mikilvægt að hann komi þeim upplýsingum til þingsins.

2. Hvernig hyggst ríkisstjórnin mæta þeim frávikum sem leiða af meiri samdrætti í tekjum en ráð var fyrir gert og vegna útgjalda umfram fjárlög? Það liggur fyrir og það er komin staðfesting, í það minnsta hvað varðar 25% af útgjöldum ríkisins að fjárlög standast ekki. Sömuleiðis hefur það verið upplýst að tekjuforsendurnar standast ekki. Þetta er því grundvallarspurning.

3. Hvernig eru áætlanir sem ríkisstjórnin lagði fyrir AGS, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, um fjárlagagerð þessa árs og undirbúningur fyrir það næsta?

Það tengist 4. spurningunni: Hvers vegna fær Alþingi Íslendinga ekki sömu upplýsingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn? Við erum í þeirri stöðu, virðulegi forseti, að alþjóðleg stofnun sem við erum að vinna með fær upplýsingar sem Alþingi Íslendinga hefur ekki fengið. Það er algerlega óásættanlegt.

5. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýst að farið verði bæði í niðurskurð og skattahækkanir árið 2010 sem nema 35–55 milljörðum kr. Hvar á niðurskurðurinn að koma fram og hvar munu skattar hækka?

6. Hversu mikið á að koma fram í hækkuðum sköttum og hversu mikið í niðurskurði?

Virðulegi forseti. Til að ítreka enn aftur mikilvægi þessa máls, þetta er grunnforsenda til þess að við getum tekið málefnalega umræðu fyrir þessar kosningar. Þessar upplýsingar liggja bara hjá einum aðila og það er hjá ríkisstjórninni. Við þingmenn höfum ekki þessar upplýsingar. Þegar kjósendur, eðli málsins samkvæmt, spyrja spurninga, hvað eigi að gera, hvaða fyrirætlanir þeir aðilar sem bjóða fram hafi, þá verða þessar upplýsingar að liggja fyrir. Við erum í þeirri sérkennilegu stöðu, virðulegi forseti, að alþjóðastofnanir hafa fengið upplýsingarnar en ekki Alþingi Íslendinga. Ég endurtek: Upplýsingarnar eru til staðar, þær liggja fyrir, þeim hefur hins vegar ekki verið komið áleiðis.

Þetta er stórt verkefni. Ég tel vera samstöðu meðal allra þingmanna sem bjóða fram að vinna okkur út úr þessu, en til þess að geta skapað traust verða menn að upplýsa um stöðu mála. Enn og aftur, virðulegi forseti, fer ég fram á að hæstv. fjármálaráðherra fari málefnalega yfir þessar spurningar og svari þeim. Ef sú staða er uppi að hann geti það ekki nú í ræðu sinni þá óska ég eftir að hæstv. ráðherra komi þeim upplýsingum sem við förum hér fram á og eigum rétt á sem þingmenn til okkar. Öðruvísi er ekki hægt að ræða málefnalega um kosningarnar sem eru fram undan og það er ekki hægt að ræða um hvað er hægt að gera eftir kosningar ef þessar upplýsingar verða ekki lagðar á borðið og Alþingi Íslendinga upplýst (Forseti hringir.) um það sem Alþingi Íslendinga á að vera upplýst um.