136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:11]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er býsna sérkennilegt að standa hér og vera að taka í þriðja sinn efnislega umræðu við Sjálfstæðisflokkinn um þetta mál. Ég minni á að það var haldinn opinn fundur í fjárlaganefnd síðastliðinn miðvikudagsmorgun þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði fjármálaráðherra nákvæmlegra þeirra spurninga sem hann spurði hér í þingsalnum. Þann sama dag kom hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hér upp undir liðnum Störf þingsins og spurði aftur nákvæmlega sömu spurninga og fjármálaráðherra svaraði.

Nú kemur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson upp í þriðja sinn hér á laugardagsmorgni til að spyrja sömu spurninga þar sem sjálfstæðismenn óskuðu eftir því að ræða þetta mál klukkan hálfellefu en tóku sér samt sem áður klukkutíma til viðbótar til að tala um allt annað mál. (Gripið fram í.)

Það virðist sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skilji ekki þau svör sem hér eru margendurtekin aftur og aftur. Það er lítið hægt að gera við því þó að hv. þingmanni líki ekki svörin eða kannski skilur hv. þingmaður ekki þau svör sem reynt er að bera á borð aftur og aftur.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur farið yfir það enn eina ferðina hvernig málið stendur á nákvæmlega sama hátt og gert var í fjárlaganefnd síðastliðinn miðvikudag. Það hefur verið talað um að sá halli sem þarf að ná á næsta ári, niðurskurður upp á 35–55 milljarða kr., verði að sjálfsögðu ekki hristur fram úr erminni og að sjálfsögðu verður að fara einhvers konar blandaða leið bæði sparnaðar og tekjuaukningar. Það liggur auðvitað í augum uppi. En það er líka ábyrgðarhluti fyrir ríkisstjórn sem á einungis 21 dag eftir til kosninga að vera að kynna hér áform um sparnað og niðurskurð. Það kemur að sjálfsögðu í hlut þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir næstu kosningar og það væri ábyrgðarlaust að mínu áliti af núverandi ríkisstjórn að kynna slík áform núna.

Ég harma það að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skuli ekki skilja þau svör sem hér er reynt að fara með í þriðja sinn í þingsal. Ég hallast helst að því að þetta sé hluti af taktík sjálfstæðismanna með fundarsköp Alþingis til þess eins að koma í veg fyrir að við ræðum hér stjórnarskipunarlög, til þess eins að við ræðum það að færa auðlindir í almannaeigu og til þess eins að koma í veg fyrir að hér verði rætt um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er þetta tvennt sem er aðalatriði í stjórnarskipunarlögunum og það er þetta tvennt sem málþóf sjálfstæðismanna gengur út á.