136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:21]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það er ekkert ofmælt að fram undan eru erfiðir tímar í íslensku efnahagslífi og ríkisfjármálum. Næstu tvö ár verða líklega þau erfiðustu sem menn hafa glímt við fram til þessa, frá því að lýðveldið var stofnað fyrir um 70 árum eða svo. Hins vegar er mikilvægt að menn láti ekki hugfallast yfir því verkefni sem fram undan er vegna þess að annars vegar er verkefnið líka til lengri tíma og þó að það sé erfiðast næstu tvö árin sjáum við, og getum kynnt okkur það af reynslu annarra þjóða sem hafa gengið í gegnum svipaða tíma, að öll él styttir upp um síðir. Vandinn verður yfirstíganlegur þegar litið er til lengri tíma en þeirra tveggja ára sem kannski er brýnast að taka á um þessar mundir.

Við skulum ekki gleyma því að þó að skuldirnar sem falla á ríkissjóð séu miklar munu skuldirnar eða framlög ríkisins til bankakerfisins ekki verða íþyngjandi fyrir skattgreiðendur ef mönnum tekst svo til að reka bankakerfið þannig að það standi undir sér. Þá eru þetta framlög sem liggja í bönkunum án útgjalda fyrir ríkissjóð og þegar bankakerfið verður komið á legg getur ríkið innleyst þau framlög með hagnaði, selt sinn hluta í þeim og náð inn tekjum án þess að hafa nokkurn tíma borið útgjöld af þeim framlögum.

Það sem þarf að glíma við er halli ríkissjóðs fyrst og fremst, hann þarf að borga og hann mun kosta peninga, og það eru skuldirnar sem falla á ríkissjóð vegna Icesave. Þetta tvennt er það sem falla mun á skattgreiðendur og þá skiptir miklu máli að samningar um Icesave verði viðráðanlegir þannig að vaxtabyrðin af brúttóskuldunum, meðan þær eru, verði okkur ekki um megn. Það er stóra málið sem stjórnvöld þurfa að finna lausn á að mínu viti.

Ég held að menn verði líka að benda á, til að alls réttlætis sé gætt og til að gera fólki grein fyrir því, að það er ekki allt eins svart og ætla mætti. Það eru of margir að mínu viti hér á sviðinu sem ganga um með þann boðskap að hér sjái ekki út úr augunum fyrir svörtu éli og að bæði heimilin og fyrirtækin séu að sökkva í skuldum. Það er ekki svo. Þó að vissulega eigi margir erfiða tíma fram undan er fjarri því að grípa þurfi til neyðaraðgerða til þess að bjarga stærstum hluta þjóðarinnar frá eigin skuldbindingum. Það er varasamt ef stjórnmálamenn í aðdraganda kosninga mála myndina dekkri litum en raunverulega er rétt að gera.