136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem á sér hér stað um stöðu ríkisfjármála og horfur varðandi fjárlög, bæði fyrir árið í ár og næsta ár, þó að ég hafi beitt mér fyrir að sú umræða ætti sér ekki stað strax í lok opins fundar vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því að fylgja eftir því áhugamáli fyrrverandi hæstv. forseta Alþingis að opnir fundir fái mikið vægi í dagskránni og séu sendir út og menn fái tækifæri til að ræða mál ítarlega þar, eins og gert var fyrr í vikunni. Það sem vekur undrun mína er að sjálfstæðismenn komu til umræðunnar með algjörlega nýjar kröfur um vinnubrögð sem þeir iðkuðu aldrei sjálfir þann stutta tíma sem ég vann með þeim. Þá fengum við fjárlögin afhent rétt fyrir þingsetningu og þó að ég sæti í fjárlaganefnd var hún ekki aðili að því að undirbúa fjárlögin. Hv. þm. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, kynnti frumvarpið á fundi í Hafnarfirði síðsumars, raunar rétt fyrir þingsetningu, og þar fengum við fyrst að sjá þau gögn sem lögð voru fram.

Þessu þarf að breyta og rétt er að miklu fyrr þarf að koma fram með hvaða hætti á að undirbúa fjárlög. Þingið þarf auðvitað að koma að þeirri vinnu og gera þar áætlanir og skipuleggja. Það tafðist á sínum tíma að vinna að samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að lengi vel dró Sjálfstæðisflokkurinn þar mjög lappirnar og raunar fleiri flokkar. Samfylkingin hafði mikinn áhuga á að ganga þar beint inn og taldi það affarasælast fyrir ríkisfjármálin og það hefur raunar komið í ljós. Unnið er eftir samstarfsáætlun fjármálaráðuneytis, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og vonandi fylgjum við því plani. Ég tók þátt í að afgreiða fjárlög fyrir árið í ár með ákveðnum markmiðum, með ákveðnum upphæðum, en það sem hefur gerst á þeim tíma eftir að skipt var um ríkisstjórn er að verið er að forgangsraða upp á nýtt. Það er einmitt athyglisvert fyrir þjóðina að fylgjast með hvernig ný ríkisstjórn forgangsraðar miðað við það sem áður var, af því að á því sést hver forgangur Sjálfstæðisflokksins var og að hve miklu leyti Samfylkingin fékk að ráða málum, sem var auðvitað umtalsvert, og hvað breyttist við að Vinstri grænir og Samfylking komu saman í ríkisstjórn.

Allir þessir flokkar, þar með talið Sjálfstæðisflokkurinn, munu að sjálfsögðu leggja stefnumál sín í dóm kjósenda eftir 2–3 vikur. Þar mun koma fram hvaða áherslur við höfum og í framhaldinu verður síðan mynduð ríkisstjórn sem fylgir eftir þeim markmiðum sem samið hefur verið um og forgangsraðar um þann niðurskurð sem áætlaður hefur verið í fjárlögum, og þau markmið sem sett hafa verið fyrir árið 2010.

Þess vegna skiptir svo miklu máli í kosningunum núna 25. apríl hverjir fá að ráða þessari forgangsröðun. Það er verið að reyna að nudda okkur upp úr einhverjum skattahækkunum, Sjálfstæðisflokkurinn telur að það sé eitthvert kosningamál sem þeir geti grætt á. Það er auðvitað mjög forvitnilegt að vita að nær allar efnahagsaðgerðirnar sem við þurftum á að (Forseti hringir.) halda í kreppunni voru notaðar af Sjálfstæðisflokknum í þenslunni (Forseti hringir.) fyrir skemmstu.