136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, bara svo því sé til haga haldið, þá eru þetta gersamlega fráleitar fullyrðingar hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að hér hafi verið um óskhyggju sérfræðinga að ræða og einkavæðingaráform þegar talað er um sameiningar- og skipulagsbreytingar. Þetta er gersamlega fráleitt og athyglisvert að heyra að hæstv. ráðherra ætlar ekki að hætta við sameiningar- og skipulagsbreytingarnar. Hann frestar þeim bara eins og öllu öðru.

Hæstv. fjármálaráðherra staðfesti enn og aftur að hann ætlar ekki að svara spurningunum. Þær yfirlýsingar ráðherrans sem eru í þessum orðum: Við munum segja þjóðinni það fyrir kosningar sem við teljum óhjákvæmilegt að gera eftir kosningar, eru bara tal, því miður bara tal. Engri þeirra spurninga sem við bárum hér upp var svarað. Hins vegar er ótrúlegt að heyra hér, virðulegi forseti, að þrír hópar eru að hefja störf á næstu dögum, nú í apríl, hvað varðar ríkisfjármálin. Einu svör ráðherrans voru að auka ætti eftirlit og aðhald. Til þess var leikurinn gerður, það er nákvæmlega það sem menn fóru í, að auka eftirlit og aðhald. Það er ljóst miðað við þær fáu tölur sem við höfum að það hefur ekki gengið eftir. Ég vek athygli á því að hér segir formaður Vinstri grænna að þær upplýsingar sem fara til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins — og ég ætla ekkert að rifja upp ummæli þessara aðila um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hér áður — séu leyniskjöl sem verði ekki birt fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill það. Að sjálfsögðu getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst allt sem hann vill hvað þetta varðar en þetta er algjörlega ótrúlegt. Það er augljóst hver stefnan er, hér kom skýrt fram hjá ráðherranum að við ætlum ekki að segja neitt fyrr en í maí og júní. Allt þetta tal um að upplýsa fyrir kosningar hvað á að gera eftir kosningar eru orðin tóm.

Við munum hins vegar ekki láta ríkisstjórnina sleppa með þetta, hún verður að upplýsa okkur um stöðu mála. Það er skylda hennar. Varðandi það að menn reyna iðulega að klína öllu á sjálfstæðismenn sem miður fer vil ég benda á að allar skuldir ríkissjóðs voru greiddar niður í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sömuleiðis voru gríðarlegar fjárhæðir greiddar inn í LSR sem því miður hafa svolítið tapast nú á síðustu missirum, þrátt fyrir að vera undir stjórn Vinstri grænna. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Stóra málið er að hér var beðið um svör við eðlilegum spurningum, grundvallarspurningum sem verður að svara fyrir kosningar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög pirraðir yfir þessum spurningum og ætla ekki að svara þeim, (Forseti hringir.) þeir ætla ekki að segja fólkinu satt fyrir kosningar heldur vonast til að umræðan muni snúast um eitthvað allt annað fram að kosningum (Forseti hringir.) en það sem máli skiptir.